Næsta bók sem tekin er fyrir á vettvangi Bókaklúbbs Spursmála er skáldsagan 1984 eftir George Orwell. Hún komst fyrst út árið 1949 og fæst við spurninguna um stóra bróður, tilraunir stjórnvalda til þess að ná tökum á lífi borgaranna og fylgjast með hverju skrefi í lífi þeirra.
Bókin er sannarlega eitt af stórvirkjum 20. aldar en hún er skrifuð í samhengi áranna eftir síðari heimstyrjöld þar sem Orwell hafði horfst í augu við alræði Stalíns og eftirlits- og ofbeldissamfélag nasismans.
Verkið vakti mikla athygli þá þegar hún kom út en hefur æ síðan orðið fólki yrkisefni í umræðu um valdmörk ríkisins og tjáningar- og hugsanafrelsi fólks. Á tækniöld hafa spurningarnar orðið æ áleitnari, ekki síst þegar sífellt auðveldara reynist að fylgjast með ferðum fólks og samskiptum, auk þess sem gagnasöfnun og -öflun verður sífellt stórtækari á grundvelli nýrrar tækni.
Bókin er á sérstöku tilboði í tilefni þess að hún er nú tekin fyrir á vettvangi klúbbsins. Er hún í boði í verslunum Pennans á 2.990 kr.
Bókin kom fyrst út í íslenskri þýðingu þeirra Hersteins Pálssonar og Thorolfs Smith árið 1951. Hún hefur nú verið þýdd að nýju af Þórdísi Bachmann og kom hún fyrir augur lesenda fyrst árið 2015.
Bókaklúbbi Spursmála hefur verið afar vel tekið og eru nú vel yfir 1000 meðlimir í honum. Þátttakan er án endurgjalds en henni fylgja ýmis fríðindi auk aðgangs að viðburðum sem klúbburinn stendur fyrir í tengslum við bókaumfjöllunina hverju sinni.
Hér er hægt að skrá sig í klúbbinn.
Í aprílmánuði fjallaði klúbburinn um bókina Geir H. Haarde ævisaga.
Í maímánuði fjallaði klúbburinn um bókina Kúbudeilan 1962 eftir Max Hastings.