Grásleppusjómönnum sem Morgunblaðið hefur rætt við líst mjög illa á fyrirhugaðar breytingar á veiðistjórnun á grásleppu og segja að dagastýringin sem nú á að taka aftur upp búi til ómanneskjulegt umhverfi.
Um þessar mundir liggur fyrir frumvarp í atvinnuveganefnd Alþingis um breytingar á lögum sem sett voru á um veiðistjórnun grásleppuveiða í fyrra. Þá var veiðistýring með aflamarki, þ.e. kvótakerfi, tekin upp en nú á að hverfa aftur til svokallaðrar dagastýringar sem er kerfið sem áður var notast við.
„Mér líst alveg djöfullega á þetta,“ segir Kári Borgar Ásgrímsson, spurður út í frumvarpið en hann er útgerðarmaður á Borgarfirði eystra, sem stundað hefur grásleppuveiðar í hátt í 40 ár.
„Það er svo ómanneskjulegt umhverfi að vinna í þessum blessuðu dögum,“ bætir hann við.
Aðrir grásleppusjómenn taka í svipaðan streng en Páll Aðalsteinsson, útgerðarmaður í Stykkishólmi til meira en 30 ára, kveðst alfarið á móti því að dagastýringin verði tekin aftur upp.
„Þetta dagakerfi er löngu gengið sér til húðar og það er afar slæmt ef það á að bakka út úr kvótasetningunni. Það er fyrirsjáanleiki í henni, núna veit maður hvað maður má veiða mikið og losnar við allt kapphlaup. Í dagastýringarkerfinu hafa menn þurft að fara út með öll sín net á sóknardögum strax, alveg sama hvernig veðráttan er, til að reyna að ná í sem mest áður en potturinn klárast,“ segir Páll.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag og í Mogga-appinu