Vill lengri reynslu á kvótasetningu

Grásleppuveiðimenn eru margir fylgjandi kvótasetningu í greininni.
Grásleppuveiðimenn eru margir fylgjandi kvótasetningu í greininni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grá­sleppu­sjó­maður­inn Jens Guðbjörns­son hef­ur sent bréf til allra þing­manna þar sem hann mót­mæl­ir frum­varpi meiri­hluta at­vinnu­vega­nefnd­ar um breyt­ing­ar á stjórn grá­sleppu­veiða. Breyt­ing­arn­ar miða að því að af­nema nýtt afla­marks­kerfi sem tekið var upp á síðasta ári og taka aft­ur upp daga­kerfi. Jens tek­ur þó fram í sam­tali við 200 míl­ur að hann hafi ekki sent bréf sitt til þing­manna Flokks fólks­ins en hann tel­ur að þar hefði hann farið bón­leiður til búðar.

Kvóti betri en daga­kerfi

„Þrátt fyr­ir að grá­slepp­an telj­ist ekki stór hluti af heild­ar­verðmæt­um sjáv­ar­út­vegs­ins er mun skyn­sam­legra að halda sig við kvóta­kerfið,“ seg­ir í bréfi Jens. Þar seg­ir hann jafn­framt að á yf­ir­stand­andi vertíð hafi veiðar farið fram með færri net­um, ekki hafi reynst nauðsyn­legt að stunda veiðar í brælu og þá hafi meðafli minnkað veru­lega. Þetta seg­ir hann sýna að kvóta­kerfið stuðli að betri meðferð auðlind­ar­inn­ar. „Auðvitað má deila um hvernig kvót­um er út­hlutað og ég tel að út­hlut­un­in hafi ekki alltaf verið rétt­lát – sér­stak­lega hvað varðar smærri út­gerðir eins og mína,“ seg­ir í bréf­inu en Jens ger­ir út frá Hafnar­f­irði á bátn­um Völu HF-5. „Þrátt fyr­ir það vil ég frek­ar kvóta­kerfi en daga­kerfi sem býður upp á mikla óvissu og skort á fyr­ir­sjá­an­leika.“

Síðasta grá­sleppu­vertíð var sú fyrsta með kvóta­setn­ingu og Jens seg­ir að grá­sleppu­veiðimenn séu al­mennt já­kvæðir gagn­vart því fyr­ir­komu­lagi, þrátt fyr­ir að ein­hverj­ir hnökr­ar hafi verið á út­hlut­un kvót­ans í ár. Upp­lýs­ing­ar um heild­arkvóta skiluðu sér seint og afla­heim­ild­ir voru tölu­vert lægri en á síðasta ári. „Já, þú sérð að við feng­um út­hlutað fimmtán tonn­um núna,“ seg­ir Jens. „Við veidd­um fimm­tíu tonn í fyrra og við höf­um verið með þrjá­tíu til fimm­tíu tonn árum sam­an.“ Engu að síður sé það mat Jens og margra grá­sleppu­veiðimanna að ekki sé ráðlegt að af­nema nýtt afla­marks­kerfi eft­ir aðeins eina vertíð. Ráðlegra væri að bíða þar til lengri reynsla verði kom­in á það hvernig kvóta­setn­ing­in reyn­ist.

Meiri­hluti grá­sleppu­veiðimanna já­kvæður

Skipt­ar skoðanir hafa verið um málið og marg­ar um­sagn­ir hafa verið send­ar inn í sam­ráðsgátt stjórn­valda. Lands­sam­band smá­báta­eig­enda (LS) seg­ist til að mynda al­farið á móti kvóta­setn­ingu á grá­sleppu og í um­sögn þess er frum­varp­inu fagnað. Þar seg­ir jafn­framt að sam­bandið telji að kvóta­setn­ing­in muni skerða af­komu margra út­gerða, fækka grá­sleppu­bát­um og hamla nýliðun. Þá tek­ur sam­bandið fram í lok um­sagn­ar sinn­ar að kvóta­setn­ing á grá­sleppu hafi leitt til auk­ins þrýst­ings á strand­veiðikerfið.

Lands­sam­band grá­sleppu­út­gerða (LSG) hef­ur einnig sent inn um­sögn um frum­varpið. Ljóst er að sam­bandið er í öllu ósam­mála LS en LSG skor­ar á full­trúa at­vinnu­vega­nefnd­ar að kynna sér bet­ur sjón­ar­mið þeirra sem stunda grá­sleppu­veiðar. LSG tek­ur fram að meiri­hluti þeirra sem stunda veiðarn­ar styðji kvóta­setn­ingu. Í um­sögn sam­bands­ins er vísað í und­ir­skrifta­söfn­un sem það stóð fyr­ir meðal grá­sleppu­út­gerða á land­inu árið 2020. Könnuð voru viðhorf þeirra til frum­varps Kristjáns Þórs Júlí­us­son­ar, þáver­andi land­búnaðar- og sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, um kvóta­setn­ingu á grá­sleppu og var meiri­hluti þeirra já­kvæður gagn­vart breyt­ing­un­um.

„Þeir sem hafa verið að veiða þetta vilja fá kvót­ann, bara til að hafa fyr­ir­sjá­an­leika í veiðunum og gera þær hag­felld­ari,“ seg­ir Jens í sam­tali við blaðamann. „Ég geri sjálf­ur út frá Hafnar­f­irði og er bú­inn að gera það í fjöru­tíu og fimm ár. Ég hef alltaf bara haft einn bát í þessu og róið með syni mín­um. Við erum ekk­ert að þessu til að selja kvót­ann. En auðvitað vona ég að ein­hverj­ir geri það svo við get­um keypt okk­ur frek­ar inn í þetta.“

mbl.is