Alþingi samþykkti frumvarp um breytingu á námsmati grunnskóla fyrr í dag. Í frumvarpinu kemur fram að heimilt verði við innritun í framhaldsskóla að líta í auknum mæli til annarra þátta en námsárangurs.
Líflegar umræður sköpuðust um frumvarpið í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær þar sem Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins og Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra tókust á.
„Eins og boðað hefur verið á að draga úr vægi einkunna við innritun í framhaldsskóla eða veita sérstaka heimild til þess. Þetta er gert á grundvelli einhvers konar „woke“-orðasalatshugsjónar í nýja frumvarpinu, að vinna gegn einsleitni í nemendahópi, að allir framhaldsskólar axli ábyrgð á fjölbreyttum nemendahópi,“ sagði Snorri.
Hann sagðist einnig vorkenna sumum talsmanna frumvarpsins og taldi þá hafa litla trú á því. Að sögn Snorra hafa talsmenn frumvarpsins skýlt sér á bak við aðgerðir þess í ljósi 15 ára gamals álits frá umboðsmanni Alþingis.
Guðmundur Ingi sagði að ekki væri verið að draga úr vegi einkunna. Einungis væri verið að gefa heimild og staðfesta hana í lögum, það væri það sem umboðsmaður Alþingis hefði beðið um.
„Við erum misleit og ég hef alltaf sagt að það er eitthvað skrýtið við það að við séum með þrjár námsgreinar sem eigi að stjórna einkunnagjöfinni og skólar séu að velja út frá því,“ sagði ráðherra.
Snorri taldi hugtökin „einsleitni“ og „fjölbreytileiki“ mjög forvitnileg og sagði að með frumvarpinu væri verið að tryggja einsleitni á meðal framhaldsskóla.
„Við erum svo innilega ósammála og ég bara næ ekki á hvaða vegferð háttvirtur þingmaður er,“ sagði Guðmundur og bætti við að það væri með ólíkindum að segja að hann sjálfur væri að búa til einsleita skóla.