Atvinnuvegaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa í sameiningu sent frá sér tilkynningu þar sem viðurkennt er að ekki hafi sömu útreikningar legið til grundvallar við útreikning veiðigjalds fyrir alla þegar málið var tekið fyrir í atvinnuveganefnd alþingis.
„Inn í tiltekna útreikninga vantaði ákveðnar forsendur frá Fiskistofu, sem leiddi til skekkju í niðurstöðu,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Segir enn fremur að stofnanirnar hafi unnið að því í framhaldinu að tryggja að sameiginlegur skilningur væri milli þeirra sem að álagningu og framkvæmd veiðigjalda koma um aðferðafræðina.
„Greining Skattsins sem send var atvinnuveganefnd byggir á þessum sameiginlega skilningi og eru ráðuneytin sammála þessari niðurstöðu, sem og Fiskistofa,“ segir í tilkynningu.
„Til að tryggja að frumvarpið sé alveg skýrt um þessar forsendur útreikninga hefur meirihluti atvinnuveganefndar lagt til breytingar í nefndaráliti sínu sem tekur af öll tvímæli í þessum efnum,“ segir í tilkynningu ráðuneytanna.
Tilkynning ráðuneytisins kemur í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins þar sem vísað er til greinar SFS þar sem Katrín Hanna Friðriksson atvinnuvegaráðherra er sökuð um að afvegaleiða þingið með því að vísvitandi bera á torg rangar forsendur til útreiknings veiðigjalda.
Þar byggir SFS á útreikningum Skattsins fyrir atvinnuveganefnd Alþingis. Upphæðir Skattsins voru raunar talsvert lægri, en SFS telja að ráðherra hafi hlutast til um að skatturinn tæki mið af öðrum tölum en þeim sem fram komu í frumvarpinu, og þannig reiknað annað en nefndin bað um.
„Atvinnuvegaráðuneytið og starfsfólk þess hefur upp á síðkastið sætt alvarlegum ásökunum í tengslum við þetta mál, m.a. um að hafa reynt að afvegaleiða löggjafann og að hafa óeðlileg afskipti af starfsemi stofnana ríkisins. Slíkar ásakanir eru litnar mjög alvarlegum augum og vísa ráðuneytin þeim alfarið á bug.“