Minni hluti atvinnuveganefndar Alþingis hefur tekið á móti gestum til þess að fjalla um veiðigjaldafrumvarpið svonefnda. Þar ræðir um umsagnaraðila, sem meiri hluti nefndarinnar hafnaði að kæmu á fund nefndarinnar. Þetta staðfesti Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks við Morgunblaðið.
„Mér finnst það hrein og bein óvirðing í nafni nefndarinnar að óska umsagna hjá sérfræðingum og hagsmunaaðilum, en svo virðir meiri hlutinn þá sem verða við beiðninni ekki viðlits, hirðir ekki um að heyra sjónarmið þeirra eða spyrja spurninga af ótta við að honum líki ekki svörin.“
Minni hlutinn stendur sameiginlega að þessu. Auk hans eru það þeir Bergþór Ólason fyrir Miðflokk, Njáll Trausti Friðbertsson fyrir Sjálfstæðisflokk og Þórarinn Ingi Pétursson fyrir Framsóknarflokk.
Meðal þeirra, sem minni hlutinn hefur boðið á sinn fund, eru Byggðastofnun, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, fjármálastofnanir, Skatturinn, Samtök sjávarútvegssveitarfélaga og dr. Ragnar Árnason fv. hagfræðiprófessor.
„Það er afar fátítt að meiri hluti nefnda hafni óskum um gestakomur,“ segir Jón. „Hvað þá þegar um er að ræða hagsmunaaðila, fræðimenn eða jafnvel ríkisstofnanir, sem koma málinu við með beinum hætti.“
Hann segir óskiljanlegt hvað liggi að baki, þegar haft sé í huga að margar athugasemdir í umsögnum hafi verið mjög alvarlegar. Þess vegna hafi minni hlutinn brugðið á þetta ráð til þess að sinna starfi sínu af kostgæfni.
„Við höfum verið að vinna að minnihlutaálitum, en það er ákaflega erfitt þegar allar þessar upplýsingar eru á reiki, jafnvel grundvallarupplýsingar,“ segir Jón.
„Það er hrein og klár upplýsingaóreiða,“ bætir hann við. „Það er ekki góður grunnur að góðri löggjöf.“