Fram kemur í yfirlýsingu frá Stjórnarráðinu og tveimur undirstofnunum þess að útreikningar á áhrifum breytinga frumvarps um hækkun veiðigjalda, sem fram komu í greinargerð með frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra, stóðust ekki. Meiri hluti atvinnuveganefndar hefur því lagt til breytingar á frumvarpinu.
Lesa má á milli línanna að um þetta hafi Skatturinn haft lokaorðið. Það verður varla til þess að styrkja málatilbúnað ráðherra eða auðvelda framgang málsins á Alþingi, en Hanna Katrín hefur sætt verulegri gagnrýni hagsmunaaðila og sveitarstjórna fyrir óvönduð vinnubrögð við gerð frumvarpsins, og stjórnarandstaðan endurómað það dyggilega.
Yfirlýsingin siglir í kjölfar frétta um að útreikningar Skattsins hafi verið á nokkuð aðra lund en þeir sem ráðherra kynnti í frumvarpi sínu, en Skatturinn hefur álagningu veiðigjalda með höndum. Hækkun veiðigjalda er því talsvert meiri en boðuð var, en hún myndi hafa tvöfaldað veiðigjöldin í ár.
Í yfirlýsingunni er vísað til samráðs atvinnuvegaráðherra og Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og undirstofnana ráðuneyta þeirra, Fiskistofu og Skattsins, um útfærslu gjalda og útreikning á grundvelli frumvarpsins.
Segir að við meðferð frumvarpsins hjá atvinnuveganefnd hafi komið í ljós að ekki var samræmi þar á milli, sem skýrðist af því að „mismunandi forsendur hefðu verið gefnar fyrir útreikningunum og að ólík gögn voru notuð við hann. Inn í tiltekna útreikninga vantaði ákveðnar forsendur frá Fiskistofu, sem leiddi til skekkju í niðurstöðu.“
Það er ekki útskýrt nánar, sem vekur spurningar út af fyrir sig. Útreikningur veiðigjalda er tiltölulega einfaldur, en samkvæmt frumvarpinu er ekki hróflað við þeirri aðferðafræði. Þar hafa hvorki ráðuneyti né aðrir val um mismunandi forsendur, aðrar en aflaverðmæti.
Segir í tilkynningunni að unnið hafi verið að því „að tryggja að sameiginlegur skilningur væri milli þeirra sem að álagningu og framkvæmd veiðigjalda koma um aðferðafræðina. Greining Skattsins sem send var atvinnuveganefnd byggir á þessum sameiginlega skilningi og eru ráðuneytin sammála þessari niðurstöðu, sem og Fiskistofa.“
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) vöktu í liðinni viku athygli á því að miðað við útreikninga Skattsins fyrir atvinnuveganefnd yrðu veiðigjöld mun hærri en ráðherrar hefðu boðað.
Upphæðir Skattsins voru þó talsvert lægri en SFS reiknaðist til, en þau töldu sýnt að ráðherra hefði hlutast til um að Skatturinn tæki mið af öðrum tölum en þeim sem fram komu í frumvarpinu, og þannig reiknað annað en nefndin bað um.
Þetta sögðu SFS alvarlegt mál, sem þingið hlyti að grennslast fyrir um, og nefndu fleiri dæmi um rangar staðhæfingar ráðherra, sem reynt hefði að afvegaleiða Alþingi. Ráðherra hefur tekið það mjög óstinnt upp.