Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og utanríkisráðherra, tókust á um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar á Alþingi í morgun.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma vitnaði Jón í gamla ræðu Þorgerðar Katrínar þegar hún var í Sjálfstæðisflokknum og gagnrýndi fyrirhugaða hækkun á veiðigjöldum. Sagði hún gjöldin ógna byggðum landsins, þjónustufyrirtækjum, rannsóknarfyrirtækjum og nýsköpunarfyrirtækjum. Vísaði hún í rannsóknir þess efnis.
„Þar vitnar hún í sambærilegar rannsóknir og hagsmunaaðilar hafa látið framkvæma í dag á áhrifum þeirrar auknu skattlagningar í veiðigjöldum sem ríkisstjórnin hefur hugmyndir um að leggja á,” sagði Jón og bætti við að á þessum tíma hefðu verið til umræðu hófsamari hækkanir á veiðigjöldum en hugmyndir væru uppi um í dag undir forystu Viðreisnar.
Hvatti hann í framhaldinu Þorgerði Katrínu til að „staldra við og vanda vinnubrögð, hlusta á sveitarfélögin, á nýsköpunarfyrirtækin, á Samtök iðnaðarins, sem þegar eru farin að sjá fram á mikinn samdrátt vegna pantana sem hafa verið settar á bið og miklu fleiri”.
Þorgerður Katrín steig þá í pontu og sagði ekkert mál hafa verið unnið jafn vel og greint jafn vel og veiðigjaldafrumvarpið.
Í ummælunum sem Jón vísaði til sagðist hún vissulega hafa varað við litlum greiningum en „svo var þetta samþykkt og allur þessi grátkór, hann bara stóðst ekki. Sjávarútvegurinn jókst og efldist, byggðirnar styrktust. Allar þessar breytingar sem við, ég þá í öðrum flokki, var að vara við, það stóðst ekki. Þær breytingar höfðu ekki þessi áhrif á greinina, á sjávarbyggðirnar eins og var varað við. Eigum við ekkert að læra frekar af reynslunni heldur en að vera að draga úr samhengi og setja hlutina í eitthvað afbrigðilegt ljós?” svaraði hún.
„Þau gögn sem liggja núna fyrir þau styðja það eindregið að þetta er eðlileg leiðrétting á réttmætum hlut landsmanna í sameign þjóðarinnar sem er fiskveiðiauðlindin í kringum landið.”
Jón steig aftur í pontu og talaði um blaður hjá Þorgerði Katrínu. Hann spurði hvort að á bak við veiðigjaldafrumvarpið væru „blautir draumar um að ganga í Evrópusambandið” og veikja fiskveiðigreinina.
„Við þurfum ekki að rífast um veiðigjöldin þá vegna þess að þá þurfum við að fara að rífast um hversu mikla styrki á að greiða til útgerðarinnar þegar við erum komnir með fiskveiðilöggjöf Evrópusambandsins á Íslandi,” sagði hann.
Þorgerður Katrín talaði í framhaldinu um „mikið galdrafár” af hálfu stjórnarandstöðunnar, sem væri að lýsa yfir vantrausti á gögnum frá Skattinum og Fiskistofu. „Þessi gögn eru á kristaltæru. Farið nú að vinna með þessi gögn en ekki vera að búa til einhverjar falsfréttir sem eiga enga stoð í raunveruleikanum.”
Hún hélt áfram og ræddi Evrópusambandið. „Það vill svo til að það eru íslensk fyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki, sem eru stærstu fjárfestingaraðilar í evrópskum sjávarútvegi. Stærstu aðilar í fjárfestingum í evrópskum sjávarútvegi eru íslensk útgerðarfyrirtæki. Er hagnaðurinn heima í þorpunum, eins og auglýsingar SFS segja? Nei, hann er úti í Evrópusambandinu,” sagði Þorgerður Katrín.
„Alla vega meta íslensk útgerðarfyrirtæki Evrópusambandið sem ekki svo slæmt að þau eru til í að fjárfesta í sjávarútvegi þar. Ég ætti eiginlega skilja hér eftir einhvern vasaklút fyrir þennan grátkór sem stjórnarandstaðan er fyrir hönd sjávarútvegsins.”