Eftir nokkra áratugi getur Ísland verið leiðandi útflutningsland sjávarafurða í hæsta gæðaflokki eða þá að við umbreytumst í hráefnisframleiðslu fyrir stærri alþjóðlega virðiskeðju eins og raunin er í Noregi. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í lokaverkefni Gísla Kristjánssonar til MBA-gráðu í viðskiptafræði við Háskóla Íslands en Gísli er framleiðslustjóri hjá Brim og þekkir umfjöllunarefnið því býsna vel. Í verkefninu fjallar Gísli um samkeppnishæfni íslenskrar landvinnslu og greinir tækifæri og áskoranir sem íslensk fiskvinnsla stendur frammi fyrir.
Miklar breytingar hafa átt sér stað í fiskvinnslu á undanförnum árum. Hér á landi hefur þróun afurðaframboðs, gæðavitund, tæknivæðing og sjálfbærni styrkt samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja töluvert, að því er segir í ritgerð Gísla. Á sama tíma hefur samkeppni aukist frá löndum þar sem launakostnaður er lægri og fiskvinnsla því ódýrari. Tækniþróun og sjálfvirknivæðing íslenskra fiskvinnsla hefur að hluta til verið viðbragð við þeirri samkeppni en íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa markvisst bætt aðstöðu og aðferðir til ferskfiskvinnslu sem einnig hefur gefið þeim forskot gagnvart löndum sem vinna uppþítt hráefni.
Í Evrópu geta sjávarútvegsfyrirtæki hins vegar sótt um styrki til tækjakaupa, þróunar og nýsköpunar í gegnum sjóði sem eru fjármagnaðir af Evrópusambandinu og aðildarríkjum. Ísland hefur ekki aðgang að þessum sjóðum þar sem landið er utan ESB og það skapar ójafna samkeppnisstöðu. Gísli segir að brýnt sé að efla samkeppnishæfni íslenskrar landvinnslu.
„Það hefur alltaf verið þessi umræða um að þetta sé ríkisstyrkt þarna úti í Evrópu en mér finnst hafa vantað gögn því tengdu,“ segir Gísli í samtali við 200 mílur. „Þess vegna langaði mig að reyna að kafa aðeins ofan í það og hafði því samband við þennan Evrópusambandssjóð [EMFAF – European Maritime, Fisheries and Aquaculture Fund] sem fyrirtæki eru að sækja í auk þess að hafa samband við sjávarútvegsráðuneytin í hverju landi fyrir sig. Og út frá því sá maður bara hvað þetta er vel skipulagt og aðgengilegt og hvernig fyrirtæki geta á einfaldan hátt sótt sér styrki fyrir alls konar fjárfestingar. Þannig að það er greinilegt að það er verið að niðurgreiða fjárfestingar hjá landvinnslu í Evrópu.“
Með því að hafa stjórn á allri virðiskeðjunni segir Gísli að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki tryggi ákveðin gæði. Það megi glöggt sjá á því trausti sem borið sé til íslenskra sjávarafurða og íslenskar upprunavottanir séu mikils virði. Gísli telur að stærsta sóknarfærið felist í því að efla markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum enn frekar og hamra á gildi upprunavottana. Hann telur að þau tækifæri hafi jafnvel að einhverju leyti verið vannýtt. „Það virðist vanta einhverja almennilega stefnumótun í þessu eins og ég rek í verkefninu. Farið hefur verið í ákveðin átaksverkefni en manni finnst eins og við gætum náð meiru út úr þessu ef við markaðssettum okkur meira sem „íslenskur uppruni“. Ég tók viðtöl við vinnslur þarna erlendis og íslenskur uppruni er alveg mikils metinn og menn eru til í að borga fyrir það.“
Gæðastimpillinn verður ekki til af sjálfu sér. Eitt helsta áhyggjuefni þeirra sem gagnrýna hækkun veiðigjalda hefur snúist um að með hækkuninni sé hætta á að fiskur verði í meiri mæli fluttur óunninn til vinnslu erlendis þar sem vinnslukostnaður sé lægri og greiður aðgangur að ríkisstyrkjum. Verði gripið til þess gæti það rýrt markaðsvirði íslenskra sjávarafurða en sé virðiskeðjan rofin bresti þær forsendur sem gera íslenskar sjávarafurðir að hágæðavöru. „Þetta er bara þessi samkeppnisfræði,“ segir Gísli. „Hún kennir okkur að samkeppnisforskot verður til þegar fyrirtæki hafa aðgang að verðmætum, sjaldgæfum auðlindum og einhverju sem erfitt er að líkja eftir. Íslensk fiskvinnsla hefur í sjálfu sér slíkar auðlindir en auðvitað hverfur það forskot ef fjárfestingar stöðvast.“ Þá segir hann að við myndum ekki endilega sjá afleiðingar þess strax. „Eftir svona fimm til tíu ár munum við kannski sjá hvernig íslensk fiskvinnsla hefur dregist aftur úr þessum ríkisstyrktu vinnslum í Evrópu.“
Gísli leggur til að íslenskar fiskvinnslur byggi saman upp sterka markaðsímynd íslenskra sjávarafurða. Þær vinni með smásöluaðilum og stórkaupendum að sýnilegri merkingum um uppruna og gæðaviðmið og nýti vottanir til að aðgreina sig. Þá leggur hann til sterkari samstarfsvettvang milli fyrirtækja í greininni.
Gísli leggur það meðal annars til við stjórnvöld að kortleggja betur verðmætasköpun í landvinnslu, tryggja fyrirsjáanlegt regluverk og skattlagningu, samræma opinbera stefnu í fiskvinnslu og styðja nýsköpun, rannsóknir og menntun. Til að tryggja mestan árangur í greininni þurfi að horfa til langs tíma.