Ragnheiður Kolka Sigurjónsdóttir býr bæði á Íslandi og í Kaupmannahöfn en hún stundar nám í viðskiptafræði. Meðfram skólanum starfar hún hjá Storm Copenhagen sem er lífsstílsverslun en stefnir á frekara nám í borginni sem heillaði hana upp úr skónum.
Hvað ertu búin að búa lengi í Kaupmannahöfn og hvers vegna fluttir þú?
„Sem barn og unglingur fékk ég tækifæri til að búa og ganga í skóla erlendis vegna starfa foreldra minna. Ég bjó í Kanada, Þýskalandi og Skotlandi og það var mjög dýrmæt reynsla. Ég var því alveg tilbúin að flytja erlendis þegar ég kláraði menntaskóla.
Ég flutti til Kaupmannahafnar sumarið 2022 og skráði mig í hönnunarskólann Københavns Mode- og Designskole yfir sumarið. Ég var ákveðin í að taka mér pásu frá námi og Kaupmannahöfn er svo dásamleg borg að ég ákvað að dvelja lengur. Ég sé ekki eftir því, búin að kynnast áhugaverðu fólki og unnið á skemmtilegum stöðum. Nú bý ég með kærasta mínum, sem er danskur, í miðbæ borgarinnar og starfa í Storm Copenhagen sem er ein af fremstu lífstíls- og tískuverslunum Evrópu.“
Ragnheiður Kolka segir það vera krefjandi að búa bæði í Reykjavík og í Kaupmannahöfn. Hún segir þó fullt af tækifærum fylgja því að búa á báðum stöðum.
„Síðasta vetur hef ég verið á flakki milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Ég vildi vera meira heima á Íslandi vegna veikinda í fjölskyldunni. Ég skráði mig því í nám í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun í Háskóla Íslands. Ég vann samhliða náminu svo ég hefði efni á því að flakka á milli. Þetta hefur gengið fáránlega vel og það eru forréttindi að geta notið þess besta á báðum stöðum. Ég elska að vera heima með fólkinu mínu. Mér finnst gott að komast í fjallgöngur, sund og gufu, það jafnast ekkert á við skerið!“
„Kaupmannahöfn er yndisleg borg og ég mæli hiklaust með því að prófa að búa þar. Borgin er lítil og þægileg og frábært að geta hjólað út um allt. Kaupmannahöfn er að mörgu leyti fullkomin fyrir ungt fólk sem langar að kynnast sjálfu sér betur. Fólkið er vinalegt og tekur á móti manni með opnum örmum. Ef maður er tilbúinn að kynnast nýju fólki og er opinn fyrir því er ekkert mál að eignast fullt af nýjum vinum.“
Aðspurð segist Ragnheiður Kolka vera opin fyrir því að fara í framhaldsnám í Kaupmannahöfn þegar hún klárar viðskiptafræðina. Hún segist spennt fyrir því að sækja um framhaldsnám við Det Kongelige Akademi þar sem er mjög metnaðarfullt framhaldsnám í listgreinum og hönnun.
„Ég fer oft á nemendasýningar hjá skólanum og ætla einmitt að kíkja á útskriftarsýningu arkitekta og hönnunarnema núna í vikunni. Ég get samt líka séð fyrir mér að fara í nám annars staðar í Evrópu.“
Hvert er draumastarfið?
„Þetta er erfið spurning en ætli draumastarfið mitt sé ekki blanda af stjórnun og hönnun. Ég hef mikinn áhuga á hvoru tveggja og stefni að því að tvinna þetta tvennt saman í starfi þar sem ég get verið bæði skapandi og haft góða yfirsýn. Ég þrífst í skapandi umhverfi og nýt þess að skapa eitthvað sem skiptir máli með hugmyndaríku fólki. Hönnun og fagurfræði einkenna Danmörku og það er því mjög gaman að búa hérna og kynnast því betur. Það er mjög auðvelt að fá innblástur hérna,“ segir Ragnheiður Kolka.
Hvernig væri hinn fullkomni dagur í Kaupmannahöfn að þínu mati?
„Hinn fullkomni dagur í Kaupmannahöfn væri sólríkur frídagur sem myndi byrja á göngutúr. Það er stór garður sem heitir Den Botanisk have í bakgarðinum hjá mér og þar myndi ég hefja daginn. Það er nauðsynlegt að stoppa í Torvehallerne og ná sér í ferska ávexti til að taka með í garðinn. Torvehallerne er eins konar mathöll og þar eru einnig til sölu blóm og ferskir ávextir. Garðurinn er fullkominn til að slaka á, skrifa í dagbók eða bara fylgjast með fólkinu sem er í garðinum. Ég gæti eytt öllum deginum þar!
Það er mikið af grænum svæðum í borginni en það er líka auðvelt að fara út úr borginni til að finna fallega staði. Ég og kærastinn minn eigum okkar uppáhalds stað sem heitir Furesøen og er rétt fyrir utan borgina. Við Furesøen er bryggja þar sem hægt er að hoppa í sjóinn eða sitja og slaka á. Það er mjög fallegt að vera þar að sumri til og fylgjast með sólsetrinu.
Ég elska líka svalirnar á þakinu á húsinu okkar. Ég myndi því ljúka deginum þar og grilla með vinum okkar,“ segir Ragnheiður Kolka.
Ragnheiður Kolka hefur verið í ýmsum störfum sem tengjast tísku og hönnun, bæði í Reykjavík og í Kaupmannahöfn. Hún hefur síðustu ár unnið á tískuvikunni í Kaupmannahöfn (CPHFW) í gegnum fyrirtækið Noise PR.
„Að vinna á tískuvikunni er sjúklega gaman og góð reynsla. Tískuvikan er haldin tvisvar á ári og ég og vinkona mín höfum unnið við að aðstoða við sýningar. Það er svo gaman að fylgjast með hvernig þetta fer fram, öllu sem gerist baksviðs, taka á móti gestum og fylgjast með hönnuðum og listamönnum sem maður hefur haft auga á í mörg ár. Borgin iðar af lífi á þessum tíma og það er mikil stemning í loftinu.“
Í gær hófst hönnunarhátíðin 3 Days of Design og er hátíðin haldin að sumri til ár hvert. Hátíðin stendur yfir í þrjá daga og leggur hún áherslu á að kynna framtíðarhönnun og strauma og samanstendur af sýningum, viðburðum, opnum vinnustofum og fyrirlestrum. Slagorð hátíðarinnar í ár er Keep it Real.
Ragnheiður Kolka segist spennt fyrir því að sjá hvað er í boði en þessa stundina er hún að vinna í lífstíls- og tískuversluninni Storm Copenhagen sem tekur þátt í hátíðinni.
„Við hjá Storm Copenhagen erum með viðburð með íslenska merkinu Fischersund. Íslenska teymið frá Fischersund kom í gær til að stilla upp fyrir sýninguna. Það er því sérstaklega gaman að vera Íslendingur þessa dagana og geta sýnt Dönum íslenska hönnun.“
Hvar er best að versla og áttu uppáhaldsflík?
„Ég elska að versla í Blå kros á Borgergade en ég finn alltaf flotta aukahluti þar. Ég keypti mér mjög töff loafers þar um daginn en annars fer ég reglulega í Humana og Wilén Store sem eru báðar á Nørrebrogade.“
„Uppáhaldsflíkin mín er sítt pils sem amma mín átti. Eftir að amma hætti að nota það fékk mamma pilsið og í framhaldinu fékk ég það. Pilsið er efnismikið, fallegt og vandað pils og saga þess gerir það enn þá fallegra. Kannski á ég eftir að gefa dóttur minni það einn daginn. Mér finnst að vandaðar flíkur eigi að ganga á milli fólks.“