Fyrir um ári hóf fiskvinnslan Vilji starfsemi í húsnæði sem áður hýsti rækjuvinnsluna Hólmadrang á Hólmavík. Á þessu eina ári hefur Vilji vaxið hratt en þar er nú 21 starfsmaður á launaskrá, sem er jafn margir og störfuðu hjá Hólmadrangi við lokun vinnslunnar árið 2023. Það var mikið högg en miðað við að 424 bjuggu þá í Strandabyggð misstu tæp 5% íbúa vinnuna. Uppgangur starfsemi eins og Vilja skiptir því samfélag á borð við Strandabyggð afar miklu máli.
„Það gengur bara mjög vel,“ segir Björk Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Vilja. „Við erum eingöngu búin að vera í framleiðslu á ferskum fiski síðan við byrjuðum en við förum að frysta í byrjun júlí. Svo að við höfum verið að bæta tækjum og fleira við og við stefnum alltaf hærra og hærra.“
Það er við hæfi að nú hafi grunnskólabörnin á svæðinu sett mark sitt á fiskvinnsluna. Húsnæðið hefur fengið skemmtilega andlitslyftingu en Björk segir að hugmyndina hafi Andri Freyr Arnarsson tómstundafulltrúi Strandabyggðar átt. Verkið var síðan formlega vígt nú í júní.
Spurð hvort þetta verkefni endurspegli kannski ákveðna hlutdeild samfélagsins í atvinnustarfsemi eins og Vilja segir Björk það alveg ljóst. Hún segir jafnframt að börnin sem alast upp á stað eins og Hólmavík hafi mörg sterka tengingu við sjóinn og starfsemi sem honum tengist. „Nálægðin við umhverfið er mjög mikil, við náttúruna og sjóinn. Börnin leika sér mörg innan um þar sem fólk er að vinna og fólk er að landa og þau fylgjast með. Við leggjum líka mikið upp úr því að taka þátt í samfélaginu og styðja það sem við getum,“ segir hún að lokum.