Miðflokkurinn bætir töluverðu við sig en fylgi hans eykst á milli mánaða úr 9,7% í 13%, samkvæmt niðurstöðum könnunar Maskínu.
Könnunin fór fram frá 20. til 24. júní og voru 876 sem svöruðu henni. Spurt var hvaða flokk fólk myndi kjósa ef gengið yrði til alþingiskosninga í dag.
Samfylkingin mælist áfram stærst flokka og bætir lítillega við sig fylgi frá því í maí, eða um 0,7 prósentustigum, og mælist nú í 28,1%. Hefur hún ekki mælst stærri hjá Maskínu frá síðustu kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist næststærstur flokka með 17,3% en í maí mældist hann með 18,9% fylgi.
Fylgi Viðreisnar mælist nú 15,3% en var 16,8% í maí. Fylgi Flokks fólksins dalar lítillega á milli mánaða, eða um 0,6 prósentustig og stendur nú í 6,6%.
Framsóknarflokkurinn stendur nánast í stað en fylgi hans eykst um 0,2 prósentustig og stendur hann nú í 7%.
Lítil breyting er á fylgi Pírata, Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna, sem eru allir með undir 5% fylgi.