Uppsagnir blasa við í sjávarútvegi á næstu misserum ef miðað er við könnun sem Gallup framkvæmdi nýverið fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann til að kanna efnahagshorfur í atvinnulífinu. Forsvarsmenn fyrirtækja hafa áhyggjur af samdrætti í greininni og formenn stéttarfélaga hafa áhyggjur af því hvað framtíðin mun þýða fyrir þeirra félagsmenn.
Í könnun Gallups kom fram að mestrar svartsýni gæti meðal fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem helmingur stjórnenda metur núverandi stöðu sem slæma en um 60% aðspurðra búast við að horfur versni enn frekar á komandi mánuðum. Aðeins 21% þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni hyggjast fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum en í sjávarútvegi sjá engin fyrirtæki fram á að bæta við sig starfsmönnum. Hins vegar segjast 39% þeirra stefna að fækkun starfsfólks.
Í skriflegu svari til 200 mílna tjáði nýr forstjóri Samherja, Baldvin Þorsteinsson, sig ekki um það hvort fyrirtækið byggist við því að fækka starfsfólki, en hann tók þó fram að miklar hækkanir veiðigjalds eigi eftir að leiða til þess að fyrirtæki muni draga úr fjárfestingu og þar með uppbyggingu í greininni. „Það þýðir að skattsporið verður lægra til lengri tíma litið. Ég bendi jafnframt á að sá blómlegi þekkingariðnaður sem byggst hefur upp í kringum sjávarútveginn hér á landi mun finna illa fyrir þessum áformum og fyrirtækin hafa þegar orðið vör við samdrátt eða frestun verkefna. Áhrifa þessara miklu hækkana gætir sem sagt víða. Íslenskur sjávarútvegur er í harðri alþjóðlegri samkeppni á erlendum mörkuðum. Þess vegna er lykilatriði að rekstrarumhverfið í greininni sé samkeppnishæft.“
Könnun Gallups sýnir þó glöggt að þær áhyggjur sem viðraðar hafa verið um störf í sjávarútvegi komi til brattrar hækkunar á veiðigjöldum séu ekki úr lausu lofti gripnar. „Kristrún Frostadóttir sagðist ætla að hækka þau í tíu skrefum á tíu árum,” segir Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, í samtali við 200 mílur en hann kom á dögunum fyrir atvinnuveganefnd vegna málsins. „Svo skellur þetta á núna og ég held að sannleikurinn sé að sársaukamörkin eða viðmiðunarmörkin séu einhvers staðar þarna á milli [stjórnvalda] og sjávarútgerðarinnar.” Hann segir að erfitt sé að framkvæma raunverulegt mat á því hvernig sjávarútvegsfyrirtæki muni verða fyrir áhrifum því rekstur þeirra sé afar mismunandi. „Ég er nú búinn að vera alla mína ævi einhvers staðar í sjávarútveginum og ég er ekki í stakk búinn til þess að segja þér hvað útgerðin er tilbúin til að geta greitt. Það er örugglega mjög mismunandi eftir fyrirtækjum, hvernig fyrirtækin eru skuldsett og hvaða veiðiheimildir þau hafa og svo framvegis og svo framvegis. Og svo er auðvitað búseta þeirra og skipakostur mismunandi.” Hann telur að nauðsynlegt sé að gera breytingar í skrefum eins og áður var stefnt að og fylgjast með því hverjar afleiðingarnar verða.
Árni bendir einnig á umsögn Félags skipstjórnarmanna við frumvarpið þar sem tekið er fram að félagið telji að lítil og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi hafi ekki burði til að standa undir svo miklum hækkunum og hætt sé við að þau sameinist eða verði keypt af stærri fyrirtækjum. Þá er einnig bent á að 10 ára kjarasamningur félagsins sem undirritaður var árið 2023 sé í hættu en í honum er kveðið á um að hægt sé að segja honum upp eftir fjögur ár ef álögur ríkisins á sjávarútveg aukist mikið. Ljóst er að almennt starfsfólk í sjávarútvegi stendur frammi fyrir mikilli óvissu á næstu misserum og sérstaklega er erfitt að sjá hverjar afleiðingarnar verða til lengri tíma litið.