Fyrsta hitabylgja sumarsins ríður nú yfir meginland Evrópu.
Búist er við allt að 37 stiga hita í Róm á Ítalíu og nærri 40 stiga hita í Marseille, næststærstu borg Frakklands. Þar hafa borgaryfirvöld fyrirskipað að ókeypis verði í almenningssundlaugar til þess að íbúar geti kælt sig.
Á morgun verður hátt viðbúnaðarstig í gildi víðast hvar í Portúgal vegna mikils hita og skógarelda. Búist er við 42 stiga hita í höfuðborginni Lissabon.
„Ég reyni að hugsa ekki um það, en ég drekk mikið af vatni og er aldrei kyrr af því að þá fær maður sólsting,“ sagði ítalski neminn Sriane Mina við AFP-fréttaveituna í Feneyjum á Ítalíu í gær.
Á Spáni er búist við yfir 40 stiga hita frá og með morgundeginum.
Sömu sögu er að segja af sunnanverðri Ítalíu og hafa yfirvöld á Sikiley bannað vinnu utandyra á heitustu tímum sólarhringsins. Ítölsk verkalýðsfélög hafa kallað eftir því að bannið gildi víðar.
Fjölmörg hitamet hafa verið slegin undanfarin og var marsmánuður meðal annars sá hlýjasti frá upphafi mælinga samkvæmt loftslagseftirliti Evrópusambandsins, Kópernikus.