„Ég varð einfaldlega hálfheltekinn af fjallalífinu“

Hermann Gunnar ásamt uppáhaldsgöngufélaganum, eiginkonu sinni, Elínu.
Hermann Gunnar ásamt uppáhaldsgöngufélaganum, eiginkonu sinni, Elínu.

Her­mann Gunn­ar Jóns­son er mik­ill göngugarp­ur og veit fátt skemmti­legra en að reima á sig göngu­skóna og arka upp á fjöll. Hann hef­ur ferðast um á tveim­ur jafn­fljót­um um fjöll­in í ná­grenni sínu síðustu ár og gekk meðal ann­ars á alla fjallat­inda í Grýtu­bakka­hreppi fyr­ir nokkr­um árum. Sú hug­mynd kviknaði fljót­lega eft­ir að Her­mann Gunn­ar fékk hina al­ræmdu göngu­bakt­eríu, eða rétt eft­ir að hann fylgd­ist með Þor­valdi Víði Þórs­syni, eða Olla, ganga á hundrað hæstu tinda lands­ins.

Her­mann Gunn­ar er bor­inn og barn­fædd­ur Bárðdæl­ing­ur. Hann er menntaður bú­fræðing­ur og húsa­smiður en starfaði lengst af sem sjó­maður, eða í heil 20 ár. Hann er bú­sett­ur á Greni­vík ásamt eig­in­konu sinni, El­ínu Jak­obs­dótt­ur, og syni þeirra hjóna, Jóni Þorra, og seg­ir lífið fyr­ir norðan af­skap­lega ljúft og þægi­legt.

Hvað heill­ar þig við að búa á Norður­landi, þá sér­stak­lega Greni­vík?

„Ég er fædd­ur og upp­al­inn í Bárðar­dal og kann vel við ró­lega lífið á Greni­vík. Þetta er al­gjör úti­vistarpara­dís. Ég loka úti­dyra­h­urðinni og er lagður af stað í fjall­göngu um leið, sem mér leiðist alls ekki. Hér er líka allt til alls, gott sam­fé­lag, heil­mik­il þjón­usta og stutt að fara til Ak­ur­eyr­ar, sá bær er góður ná­granni.“

Hermann Gunnar á toppi Gjögurfjalls.
Her­mann Gunn­ar á toppi Gjög­ur­fjalls.

Ferðaáhug­inn alltaf verið til staðar

Aðspurður hvenær ferðaáhug­inn hafi kviknað seg­ir Her­mann Gunn­ar hann alltaf hafa verið til staðar.

„Maður ólst upp í sveit­inni og við sveita­störf, hlaup­andi um fjöll og firn­indi og ríðandi á hest­um. Hesta­mennsk­an var aðaláhuga­málið þar til fyr­ir svona tíu til fimmtán árum en þá færðist áhug­inn meira yfir í fjalla­göng­ur og nú síðast fjalla­hlaup.“

Hvað heillaði þig svona mikið við fjall­göng­ur?

„Æ, veistu ég bara veit það hrein­lega ekki, eða man það ekki,“ seg­ir Her­mann Gunn­ar og hlær. „Árið 2007 kviknaði ein­hver óút­skýr­an­leg­ur áhugi og ég varð ein­fald­lega hálf­heltek­inn af fjalla­líf­inu.“

Hermann Gunnar tekur mikið af ljósmyndum á ferðalögum sínum um …
Her­mann Gunn­ar tek­ur mikið af ljós­mynd­um á ferðalög­um sín­um um há­lendið.

Er mik­il æv­in­týraþrá í þér?

„Svona, já og nei. Ég er ró­lynd­ismaður og mjög passa­sam­ur, fer ávallt var­lega. En ég bara elska að arka upp á fjöll og njóta úti­veru í ís­lenskri nátt­úru, hvort sem er einn, með eig­in­kon­unni eða hópi fjallagarpa.“

Her­manni Gunn­ari fannst ekki mikið mál að byrja að ganga á fjöll.

„Þetta var lítið mál. Ég er sveitamaður í mér, bú­inn að fara ríðandi í göng­ur alla tíð og það að ganga á fjöll var ekk­ert nýtt fyr­ir mér, þannig lagað. En þegar ég byrjaði að ganga á fjöll þá voru auðvitað leiðir sem reynd­ust mér krefj­andi en ég lagði upp úr því að vera var­kár.“

Hvar hef­ur þú mest verið að ganga á fjöll?

„Maður hef­ur mest verið að labba „á heima­svæði“, það er sem sagt skag­inn okk­ar, Gjögraskagi/​Flat­eyj­ar­skagi, sem ligg­ur á milli Eyja­fjarðar og Skjálf­anda­flóa. Það er ynd­is­legt svæði sem býður upp á fjöl­breytt­ar og skemmti­leg­ar göngu­leiðir, fyr­ir byrj­end­ur sem og lengra komna.“

Ekki slæmt útsýni.
Ekki slæmt út­sýni.

Ferðu mest einn á fjöll?

„Ég til­heyri eng­um göngu­hóp­um og fer mikið einn en á síðustu árum höf­um við hjón­in gengið mikið sam­an á fjöll. Í lang­an tíma fór ég bara ein­sam­all, ef það var gott veður á virk­um degi þá bara skellti ég mér af stað, sem var mjög þægi­legt. Maður fékk út­rás og gleymdi dags­ins amstri í eitt and­ar­tak.“

Eru fjall­göng­ur besta leiðin til að hreinsa hug­ann?

„Já, að mínu mati. Maður kem­ur end­ur­nærður til baka úr góðri göngu. Fjall­göng­ur eru líka góð leið til að halda sér í formi, sem skipt­ir mig máli. Ég vil halda mér í fjalla­formi, eða þannig formi að ég geti tekið með góðu móti krefj­andi sex til átta tíma fjall­göngu án þess að vera upp­gef­inn á eft­ir. Maður vill sömu­leiðis geta horft til baka og séð að maður hafi lagt sig fram um að gera eitt­hvað fyr­ir heils­una og auka lík­urn­ar á að vera frísk­ur gam­all.“

Hópur göngugarpa á leið niður af Kaldbak.
Hóp­ur göngugarpa á leið niður af Kald­bak.

„Ég skrá­setti ferðalagið“

Her­mann Gunn­ar hélt af stað í fyrstu fjall­göng­una í hinu svo­kallaða fjalla­verk­efni árið 2009 og sex árum síðar náði hann á topp síðasta fjalls­ins í hreppn­um og árið 2023 hafði hann lokið við að ganga á alla fjallatoppa Gjögraskaga/​Flat­eyj­ar­skaga.

„Þetta var góður tími,“ seg­ir hann.

Áttu þér upp­á­halds­fjalla­leið á Norður­landi?

„Það er dags­fjalla­leið um Sví­nár­hnjúk, Útburðarskál­ar­hnjúk og Kald­bak; þessi leið er fyr­ir þá sem eru van­ir fjall­göng­um. En svo er einn staður, ekki al­veg á Norður­landi, við erum eig­in­lega dott­in inn á Aust­ur­land eða Norðaust­ur­land, en það er þriggja tíma göngu­túr um Þerri­björg á Héraði. Það er einn flott­asti staður sem ég hef komið á. Gang­an er krefj­andi en vel þess virði.“

Og svona í lok­in varð blaðamaður að for­vitn­ast um það sem má ekki vanta í bak­pok­ann.

„Skyndi­hjálp­arpakk­ann og kakó,“ seg­ir Her­mann Gunn­ar að lok­um.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: