„Ég held að það skipti engu máli hvaða orð ég nota til að lýsa annarri umræðu um veiðigjaldið, en hún er orðin þriðja lengsta umræða í þingsögunni, að minnsta kosti undir núgildandi þingskapalögum. Það segir sína sögu.”
Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is en umræður um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar standa enn yfir og sumir hafa sagt stjórnarandstöðuna stunda málþóf.
Þórunn segir ótímabært að hún tjái sig um það hvenær samningar náist um þinglok og hvaða mál verði kláruð á þessu þingi, sem átti að ljúka fyrir tveimur vikum.
Spurð hvort umræður um veiðigjöld fái að halda áfram út í hið óendanlega segir hún:
„Það er ótímabært að ég tjái mig um það, ég er í samtölum. Ég er að tala við þingflokksformenn, þeir voru á fundi með mér í hádeginu og samtölin halda áfram. Það er þannig sem við leysum þetta hér.”
Hún segir óljóst hvenær þingfundi verði slitið í dag en segir ekki útilokað að umræður haldi áfram fram eftir nóttu. Þingfundur mun svo hefjast klukkan 10 á morgun eins og aðra daga vikunnar.