Rífandi gangur er í saltfiskvinnslu Vísis í Grindavík þessi dægrin. Eins og alþjóð veit hefur margt gengið á í bæjarfélaginu síðustu ár og Vísir ekki farið varhluta af því. Jóna Rúna Erlingsdóttir, verk- og gæðastjóri saltfiskvinnslunnar, segir þó í samtali við 200 mílur að vel gangi að manna vinnsluna. „Það er bara alveg frábært að fólk vilji koma hingað og vinna hérna,“ segir hún og bætir við að starfsfólkið sé öflugt, vinni vel saman og sé að mestu hætt að kippa sér upp við rýmingar sem þó verða færri og færri. Senn fer annasömum tíma að ljúka í bili og starfsfólk tínist eitt af öðru í sumarfrí en vinnslan tekur aftur til starfa 13. ágúst.
Við saltfiskverkunina hjá Vísi vinna rúmlega 60 manns. Dágott magn af fiski ratar frá þeim út í heim en mestur útflutningur Vísis á saltfiski fer til þriggja landa. Smærri línufiskur fer að miklu leyti til Grikklands en stór línufiskur til Ítalíu og Spánar. Hráefnið er mestmegnis þorskur en líka keila, ufsi og langa. Þá er framleiddur svokallaður portfiskur sem fer til Portúgals.
Ljóst er að Grindavíkurhöfn er að ná sér á strik eftir langt tímabil sem hefur markast af jarðhræringum, rýmingum og lokunum. Í gær var sagt frá því á vef Grindavíkurbæjar að mikil aukning væri í lönduðum afla, eða þrefalt meiri á fyrsta ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra. Þá liggur fyrir að sjávarútvegsfyrirtækið Ganti, eitt þriggja félaga sem urðu til við uppskiptingu Þorbjarnar á síðasta ári, stefnir bráðlega að uppbyggingu saltfiskvinnslu í Grindavík.
Þegar Grindavík var rýmd var nauðsynlegt að færa starfsemi Vísis en saltfiskvinnsla fyrirtækisins hefur verið í sama húsi síðan það var stofnað árið 1965. Vinnslan var starfrækt í Helguvík í dágóðan tíma en langþráð enduropnun var síðan 2. apríl 2024 og öll vinnslan komin á sinn stað í júní sama ár. Stöku sinnum hefur komið til rýminga á þessu ári sem er liðið en þær hafa alltaf verið skammvinnar. Aðspurð hvernig starfsfólk takist á við það þegar bjöllurnar glymja í bænum segir Jóna að flestir taki því með stökustu ró.
„Við höfum haft tíma til að ganga frá,“ segir Jóna. „Þeir gefa okkur um fjörutíu og fimm mínútur til að taka fiskinn af böndunum, skola og ganga frá. Við höfum alveg lent í því. Ef fólk treystir sér ekki þá er því náttúrlega velkomið að fara á undan en flestir eru bara þokkalega rólegir.“ Nægur tími sé því til að tryggja vinnsluna áður en hún sé yfirgefin og enginn æsingur á ferð, enda allir orðnir þaulvanir. „Það eru jú viðbragðsæfingar. Bjöllurnar fara reglulega í gang hérna í bænum. Svo heldur fyrirtækið sjálft auðvitað sínar æfingar líka.“
Jóna segir þó að gott sé að finna að ákveðnu jafnvægi hafi verið náð. „Maður trúir því varla að það séu að verða tvö ár núna síðan öllu var lokað,“ segir hún. Þegar Jóna er spurð hvort hún vilji bæta einhverju við að lokum stendur ekki á henni: „Ja, bara að lífið er saltfiskur,“ segir hún og hlær.