Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum samkvæmt nýjum þjóðarpúls Gallup. Sterkasta kjördæmi Sjálfstæðisflokksins er Norðvesturkjördæmi og fylgi Flokks fólksins hrynur í Suðurkjördæmi frá seinustu kosningum.
Í Reykjavíkurkjördæmi suður trónir Samfylkingin á toppnum með 32,9%. Næststærstur er Sjálfstæðisflokkurinn með 20,1%. Viðreisn mælist með 14,4% og þar á eftir mælist Miðflokkurinn með 7,9% fylgi.
Athygli vekur að Píratar, sem mælast þar með 6,6% fylgi mælast stærri en ríkisstjórnarflokkurinn Flokkur fólksins sem mælist með aðeins 4,5%. Framsókn mælist minnstur flokka á þingi með 3,4%. Vinstri græn mælast með 4,3%.
Ríkisstjórnin mælist sterkust í Reykjavíkurkjördæmi norður, eða með samtals 54,2%. Þar af er Samfylkingin með 35%, Viðreisn með 12,8% og Flokkur fólksins með 6,4%. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 17,5% fylgi, Miðflokkurinn með 8% og Framsókn með 2,9%. Píratar mælast með 5,8% og Vinstri græn með 5,4%.
Í Suðvesturkjördæmi mælist ríkisstjórnin einnig með stamtals 54,2%.
Samfylkingin með 30,6%, Sjálfstæðisflokkurinn með 21,9%, Viðreisn með 18,8%, Miðflokkurinn með 11,2%, Flokkur fólksins með 4,8% og Framsókn með 2,4%.
Norðvesturkjördæmi reynist Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum sterkast og mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 23,9% fylgi og Framsókn 13,8%. Samfylkingin mælist einmitt þar með sitt slakasta fylgi eða 26,9%. Viðreisn mælist með 10,8%, Miðflokkurinn með 10,6% og Flokkur fólksins með 8,4%.
Sterkasta kjördæmi Samfylkingarinnar virðist vera Norðausturkjördæmi og mælist hún þar með 36,3% fylgi. Miðflokkurinn mælist einnig þar með sitt mesta fylgi eða 15,4%. Sjálfstæðisflokkurinn mælist þar með sitt lægsta fylgi eða 17,2%. Viðreisn mælist þar með 9%, Flokkur fólksins og Framsókn mælast jafnir með 7,4%.
Í Suðurkjördæmi hríðfellur fylgi Flokks fólksins og mælist þar með 11,1%, en flokkurinn hlaut þar mest fylgi í kosningunum í nóvember eða 20% atkvæða. Samfylkingin mælist þar með 28,5%, Viðreisn með 8,9%, Sjálfstæðisflokkurinn með 22,9%, Miðflokkurinn með 13,1% og Framsókn með 11,6%.