„Umfram allt þarf fleira fólk í bæinn til búsetu. Ef slíkt gerist styrkist atvinnulífið enn frekar; hægt er að opna verslanir og litlu þjónustufyrirtækin og svo koll af kolli,“ segir Karitas Una Daníelsdóttir, íbúi í Grindavík. Hún er ein þeirra um 70 fyrrverandi húseigenda í bænum sem samið hafa við Þórkötlu fasteignafélag um dvöl í gamla húsinu sínu, skv. ákveðnum skilyrðum. Þetta er við götuna Suðurhóp og þar býr einnig Erla Hjördís Ólafsdóttir.
„Nauðsynlegt er að setja upp skýr plön um endurkomu íbúa, bæði til lengri og skemmri tíma. Stjórnvöld verða að koma með svör um hvernig framtíðin verður í bænum okkar,“ segir Erla. Grindvíkingar sem Morgunblaðið ræddi við gagnrýna að stjórnvöld láti reka á reiðanum í málefnum bæjarins. Í tíð fyrri ríkisstjórnar hafi eftir megni verið reynt að bregðast fljótt við þeim málum viðvíkjandi Grindavík sem upp komu. Nú kalli fólk í bænum eftir fyrirsjáanleika.
Nánar má lesa um málið á bls. 16 í Morgunblaðinu og í Mogga-appinu í dag