Aukin samþjöppun í sjávarútvegi blasir við verði veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar að lögum, að mati þingmanns, og áhrifin kunna að verða óafturkræf. Hann gagnrýnir jafnframt forsætisráðherra fyrir að sýna skort á stjórnkænsku og hæfni til að leiða ágreining í jörð.
Þetta segir Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is.
Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, sem 26 sveitarfélög tilheyra, gáfu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem varað er við því að mikil og brött hækkun veiðigjalda myndi valda samþjöppun í sjávarútvegi.
Tekur þú undir þú undir þessi sjónarmið?
„Já, það blasir við og við höfum verið að benda á þetta alveg frá byrjun. Þetta er nú eitt af þeim atriðum sem ég nefni þegar stjórnarliðar yppta öxlum og segja: „Af hverju viljið þið ekki bara leyfa okkur að bera ábyrgð á þessu?” Þá er staðreyndin sú að hluti þeirra áhrifa sem fram koma er óafturkræf. Meðal annars er það samþjöppunin sem mun verða annaðhvort strax eða mjög fljótt,“ segir Bergþór.
Aðspurður segir hann að óafturkræf samþjöppun í sjávarútvegi sé meðal alvarlegustu afleiðinganna af frumvarpinu.
„Það er mjög stórt áhyggjuefni og auðvitað eðlilega það sem sjávarútvegssveitarfélögin hafa miklar áhyggjur af.“
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði við fjölmiðla í gær að frumvarpið myndi fara í gegn á þessu vorþingi.
Spurður hvort enginn sveigjanleiki sé hjá ríkisstjórninni til að skoða frumvarpið betur eða ráðast í einhverjar málamiðlanir segir Bergþór erfitt að tjá sig um það í ljósi þess að hann er einn af þeim þingflokksformönnum sem standa að viðræðum um þinglokasamninga.
Þó segir hann að Kristrúnu skorti hæfileika til að leysa ágreining.
„Afstaða og orð forsætisráðherra sem komu fram í gær benda til að þar sé ekki mikilli stjórnkænsku fyrir að fara og klókindum hvað það varðar að leiða mál í jörðu. Heldur virðast skilaboðin vera: „Ég á þetta, ég má þetta og ég ætla að gera þetta eins og ég vil, sama hvað öðrum finnst“,“ segir Bergþór.
Hann minnir á að málið hafi aðeins verið lagt fram 5. maí sem sé löngu eftir síðasta framlagningardag á Alþingi. Það séu í raun óforsvaranleg vinnubrögð þegar um sé að ræða frumvarp sem getur haft svona yfirgripsmiklar afleiðingar.
Hann segir að kannski væri í lagi að leggja fram frumvarp svona seint ef um væri að ræða lítið frumvarp „en risavaxin kerfisbreyting eins og þetta, gagnvart helsta undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, það er aldeilis fráleitt og ber vott um slaka verkstjórn þeirra valkyrjanna.“
Í yfirlýsingu samtakanna var hvatt til þess að áhrif frumvarpsins yrðu metin ítarlega, þar með talið áhrif á útsvarstekjur, hafnir, stoðgreinar og nýsköpun.
Bergþór segir alveg fráleitt að frumvarpið sé lagt fram án þess að greina hvernig það hefur áhrif á þessa þætti.
„Það er alveg fráleitt og forkastanlegt í raun að því sé beinlínis haldið fram [af stjórnarliðum] að málið hafi ekki áhrif á sveitarfélög. Það dregur fram þetta algera skilningsleysi margra stjórnarliða á efnisatriðum málsins.“