Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sakaði stjórnarandstöðuna um að hefja málþóf um strandveiðifrumvarp eftir að fjórir þingmenn höfðu flutt ræðu, auk andsvara, um strandveiðifrumvarp hennar í 2. umræðu.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar undrast þessi ummæli og segja eitthvað „skrýtið vera í gangi“.
„Nú er staðan sú að ef frumvarpið losnar ekki úr málþófi minnihluta Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknarflokks þá stöðvast strandveiðar um miðja næstu viku,“ skrifaði Hanna rúmlega tveimur klukkutímum eftir að umræður um strandveiðar hófust.
Undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi fyrir skömmu sagði Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, málið vera hið undarlegasta.
Einu þingmennirnir sem höfðu flutt ræðu voru nefndarmenn í atvinnuveganefnd, að sögn Bergþórs. Af þessum fjórum ræðum voru tvær framsögur fyrir nefndaráliti.
„Hæstvirtur ráðherra fór mikinn á Facebook-síðu sinni hér fyrr í dag þar sem ráðherrann flaggaði því að nú væri byrjað málþóf í því máli er hér er rætt og varðar strandveiðar. Þá höfðu fjórir þingmenn haldið ræður í málinu við 2. umræðu,“ sagði Bergþór og bætti við:
„Ég vil biðja virðulegan forseta að hlutast til um að einhvers konar jafnaðargeðsnámskeið verði gert aðgengilegt fyrir hæstvirtan ráðherra, því að þetta tekur ekki nokkru tali gagnvart máli sem var rætt hér við 1. umræðu 3. júní,“ sagði Bergþór.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að eitthvað skrýtið væri í gangi á þinginu.
„Það er eitthvað skrýtið í gangi hérna. Hvað er í gangi bak við luktar dyr Stjórnarráðsins? Hér er enginn hæstvirtur ráðherra, þeir láta ekki sjá sig, þeir tala ekki við stjórnarandstöðuna og skilaboðin á samfélagsmiðlum eru hver öðrum skrýtnari,“ sagði hann.
Hann sagði ljóst að ríkisstjórnin hefði algjörlega misskilið hlutverk þingsins og ljóst væri að hún vildi stýra landinu með tilskipunum.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, tók til máls og sagði undarlegt að fara upp í fundarstjórn forseta og „fara yfir það hvernig ráðherrar skuli haga sínum samfélagsmiðlafærslum.“
Hann sagði það þó gleðja sig að stjórnarandstöðuþingmenn teldu það alvarlegt að vera sakaðir um málþóf.
„Það sem ég heyri þegar ég heyri þetta er að fulltrúar minnihlutans geri sér grein fyrir því að málþóf er alvarlegt og aðför að lýðræðinu hér í landi,“ sagði Guðmundur.