Aðeins 17% þjóðarinnar andvíg veiðigjaldafrumvarpinu

Frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur verið til umræðu á …
Frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur verið til umræðu á þinginu. mbl.is/Karítas

Aðeins 17% þjóðar­inn­ar eru and­víg veiðigjalda­frum­varp­inu sem nú er til umræðu á Alþingi, ef marka má niður­stöður nýj­ustu könn­un­ar Pró­sents. Þá er ríf­leg­ur meiri­hluti þjóðar­inn­ar hlynnt­ur frum­varp­inu, eða 69%, en 14% eru hvorki hlynnt né and­víg.

Ein­ung­is í til­felli kjós­enda Sjálf­stæðis­flokks­ins mæl­ist andstaða við frum­varpið meiri en stuðning­ur.

Könn­un­in var fram­kvæmd dag­ana 19. júní til 3. júlí en úr­takið var 1.950 manns og svar­hlut­fallið 50%.

Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða and­víg(ur) ert þú frum­varpi at­vinnu­vegaráðherra um breyt­ingu á lög­um um veiðigjald?

Kon­ur lík­legri að taka ekki af­stöðu

Fleiri karl­ar en kon­ur eru á móti frum­varp­inu, eða 23% karla á móti 12% kvenna. Fleiri kon­ur segj­ast hvorki hlynnt­ar né and­víg­ar, eða 19% kvenna á móti 8% karla, en svipað hlut­fall kynj­anna styður frum­varpið eða 69% og 70%.

Fleiri and­víg­ir á lands­byggðinni en meiri­hluti þó hlynnt­ur

Íbúar lands­byggðar­inn­ar eru mót­falln­ari frum­varp­inu en höfuðborg­ar­bú­ar, eða 23% gegn 12-13%. Meiri­hluti lands­byggðar­inn­ar styður þó frum­varpið eða um 62%.

Hlut­fallið þeirra á höfuðborg­ar­svæðinu sem styður frum­varpið er aðeins hærra, eða um 73-74%.

Mesta andstaðan meðal Sjálf­stæðismanna

Pró­sent sund­urliðaði töl­urn­ar jafn­framt eft­ir fylgi flokk­anna en at­hygli vek­ur að aðeins í hópi kjós­enda Sjálf­stæðis­flokks­ins má finna fleiri sem eru á móti frum­varp­inu en með. Þannig mæl­ist andstaðan við frum­varpið um 63% í þeim kjós­enda­hópi en aðeins 22% segj­ast hlynnt­ir því. 16% kjós­enda Sjálf­stæðis­flokks­ins eru hvorki hlynnt­ir né and­víg­ir.

Næst­mestu and­stöðuna við frum­varpið má finna meðal kjós­enda Miðflokks­ins. Þar eru þó fleiri hlynnt­ir frum­varp­inu en and­víg­ir, eða 43% gegn 42%. 15% segj­ast hvorki styðja frum­varpið né vera mót­fall­in því.

Stuðning­ur við frum­varpið mæl­ist mun meiri meðal kjós­enda annarra flokka en hann er mest­ur meðal Sam­fylk­ing­ar- og Viðreisn­ar­fólks.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina