Jens Garðar Helgason, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir ótal umsagnir hafa borist á seinustu dögum varðandi frumvarpið um hækkun veiðigjalda og ítrekar að engin greining á áhrifum frumvarpsins hafi verið unnin.
Stjórn samtaka sjávarútvegssveitarfélaga gagnrýndi í gær frumvarpið sem hún telur að þurfi að vinna betur á grundvelli nýrra gagna.
„Það var ekki unnin nein greining á áhrifum frumvarpsins á sveitarfélögin. Tuttugu og sex sveitarfélög senda aftur, bara núna í júlí, inn umsagnir og eru að fara fram á að þessi greining verði unnin,“ segir Jens Garðar í samtali við mbl.is.
„Það er verið að kalla eftir því og þetta hefur meðal annars verið einn af stóru punktunum og stóru rökunum í okkar ræðum.“
Hann segir nýjar tölur frá Deloitte sýna að þessi gjöld verði til þess að 75-90% af rekstrarafkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna fari í opinber gjöld, þrátt fyrir hækkun á frítekjumarki.
„Þrátt fyrir hækkunina á frítekjumarki og allt það sem stjórnarliðarnir hafa verið að tala um, þá bara grípur frumvarpið ekki litlu og meðalstóru fyrirtækin.“
Í yfirlýsingu stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga er fjallað um að verulegar líkur séu á að hækkun veiðigjalds leiði til aukinnar samþjöppunar innan geirans. Jens Garðar tekur í sama streng.
„Þetta mun verða til þess að það verður örugglega erfitt fyrir marga sem eru með litlar og meðalstórar útgerðir að reka fyrirtækin í núverandi mynd og menn þurfa að leita til sameiningar. Ég get svo sem ekkert sagt nákvæmlega til um það á þessari stundu en þessum varnaðarorðum hefur verið haldið uppi við okkur.“