Strandveiðar hafa gengið afar vel á norðausturhorninu en nú fækkar þeim tonnum sem eftir eru í strandveiðipottinum og menn fylgjast grannt með stöðu mála á þingi þar sem strandveiðifrumvarp er til umræðu.
Blaðamaður 200 mílna sló á þráðinn hjá Hauki Eiðssyni, strandveiðisjómanni á Húsavík, til að taka stöðuna á veiðunum og kanna hvort menn hafi áhyggjur af því að frumvarpið muni ekki ganga í gegn. Haukur er hins vegar einn þeirra sem lýsa efasemdum um það hvernig staðið hefur verið að frumvarpinu. „Það lá fyrir alla tíð fyrir að það yrði ekkert hægt að bæta við kvótann því það var búið að úthluta öllum kvóta í haust,” segir Haukur. „Það er enginn sem getur tekið hann bara úr loftinu. Ekki ef menn ætla að fara eftir reglunum.”
Sjálfur hefur Haukur verið skipstjóri í 30 ár, hefur sótt sjóinn á stórum bátum sem smáum og rekur útgerð ásamt eiginkonu sinni. Hann telur sig því hafa breiða sýn á málið og segir að þurft hefði að vinna það með meiri fyrirhyggju. Skynsamlegra hefði verið að gefa málinu lengri tíma til undirbúnings og stefna frekar að hóflegri breytingum á næsta ári. Nú sé hins vegar verið að breyta leikreglum á miðju fiskveiðiári og það sé hrópandi ósamræmi í því. „Ef það verður úthlutað 100.000 tonnum af loðnu næst, ætla menn þá bara veiða 200.000 tonn?” segir hann. „Þetta er bara almenn skynsemi.” Haukur segir að kerfið geti ekki stækkað endalaust en hann telur sig sjá aukna aðsókn í greinina hjá fólki sem stundar hana ekki að staðaldri. „Ég vil alla vega ekki taka kvóta af atvinnusjómönnum til að láta lækna og flugmenn hafa hann til að leika sér.”
Haukur varar einnig við því að frumvarpið geti haft neikvæð áhrif á byggðarlög sem reiða sig meðal annars á byggðakvóta. „Til dæmis á Raufarhöfn. Þar er rekin 25 manna fiskvinnsla, mikið til á byggðakvóta og sértækum kvóta, en menn ætla að taka hann til að láta flugumenn og lækna hafa hann,” segir Haukur. „Ég er auðvitað ekki á móti strandveiðum, en einhvers staðar verða menn að hægja á sér.”
Þegar þetta er skrifað eru rúm 1.400 tonn eftir af þorskveiðiheimildum en þegar þær klárast verða strandveiðar stöðvaðar nema frumvarp atvinnuvegaráðherra gangi í gegn. Myndi ráðherra þá hafa heimild til að ráðstafa auknu aflamagni í því skyni að tryggja strandveiðimönnum 48 daga veiðitímabil.