Poppstjarnan Katy Perry lét sig að sjálfsögðu ekki vanta í París þar sem Haute Couture-tískuvikunni lauk í gær, fimmtudag, en hún var glæsileg í stuttum, svörtum, tvíhnepptum kjól á tískusýningu Balenciaga þar í borg.
Söngkonan, sem er á tónleikaferðalagi, deildi myndasyrpu af sér í kjólnum og að hafa sig til á Instagram-síðu sinni og skrifaði: „að sinna mínum eigin málum á sýningu Balenciaga.“
Á síðustu mynd syrpunnar má sjá Perry lyfta upp kjólnum og bera bossann. Það er því spurning hvort söngkonan sé tilbúin að dýfa tánum í stefnumótalaugina á ný en hún og leikarinn Orlando Bloom slitu trúlofun sinni eftir níu ára samband fyrr á árinu.
Perry og Bloom eiga eina dóttur, hina fjögurra ára gömlu Daisy Dove.