Aflýsa þurfti tónleikum ensku rokksveitarinnar ELO (e. Electric Light Orchestra) aðeins nokkrum mínútum áður en sveitin átti að stíga á svið í Co Op-tónleikahöllinni í Manchester-borg á Englandi í gærkvöld.
Þúsundir aðdáenda sveitarinnar sem biðu spenntir eftir að hlýða á lög á borð við Telephone Line, Last Train to London, Can't Get It Out of My Head og Evil Woman urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir sáu tilkynningu á Facebook-síðu Jeff Lynne, söngvara sveitarinnar, um aflýsingu tónleikanna.
Lynne, sem er einn af forsprökkum rokksveitarinnar, hefur að sögn talsmanns sveitarinnar glímt við veikindi að undanförnu og treysti sér ekki til að stíga á svið.
Tónleikagestum var því bent á að hafa samband við miðasölu til þess að fá miðana endurgreidda.
ELO, sem er nú á síðasta tónleikaferðalagi sínu, var með tónleika á sama stað kvöldinu áður og voru fjölmargir aðdáendur sem lýstu yfir áhyggjum af heilsufari Lynne á samfélagsmiðlum.
„Ég var mjög heppinn að sjá Jeff Lynne á tónleikum í Manchester í kvöld. Tónleikarnir voru stórkostlegir en ég fór þaðan mjög áhyggjufullur um heilsu Jeffs. Hann leit út fyrir að vera mjög veikburða og þurfti að vera leiddur af sviðinu í lokin. Ég vona að þú vaknir úthvíldur og þér líði miklu betur, Jeff,” skrifaði einn aðdáandi sveitarinnar.