Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu - félags fanga, segir það ekki nýtt af nálinni að fangar sem glími við heilabilun afpláni dóm í lokuðu fangelsisúrræði. Hann segir ástandið vera lýsandi fyrir skort á úrræðum fyrir alvarlega veika fanga - hvort sem um sé að ræða fanga sem glími við heilabilun eða aðra sjúkdóma.
Greint var frá því í gær að nýlega hafi tveir fangar með alvarlega heilabilun afplánað dóm í fangelsinu á Hólmsheiði. Fangarnir sem um ræðir eru mikið til ósjálfbjarga og þurfa aðstoð við daglegar athafnir. Hafa aðrir samfangar þeirra verið fengnir til að sinna þeim og í einhverjum tilfellum fengið greitt fyrir.
Spurður út í þetta segir Guðmundur það vera óeðlilegt að fangar annist aðra veika samfanga sína. Hugsunin sé falleg en getur ekki talist sem eðlilegt ástand.
„Öll umönnun þarf að vera af fólki sem er þjálfað í slíkt. Við getum ekki haft ósjálfbjarga fanga undir höndum annarra fanga, sem stjórna þá þeirra lífi í fangelsunum. Það er óeðlilegt. Hins vegar er þetta fallegt og gott að aðrir fangar fái að vinna en akkúrat á þessum stað er þetta óeðlilegt,“ segir Guðmundur.
Guðmundur segir að á hverjum tíma séu um 5 til 8 einstaklingar í fangelsum sem eigi heima í öðru þjónustuúrræði. Ekki hafi tekist að finna viðeigandi langtímaúrræði fyrir þá einstaklinga en telur Guðmundur brýnt að mæta þjónustuþörfum þessara einstaklinga með viðeigandi hætti.
„Þá komum við aftur inn á þetta úrræðaleysi sem er í gangi á Íslandi en dómarar hafa engin önnur úrræði [en fangelsi] að dæma fólk í. Svo eru viðmiðin fyrir sakhæfi svo þröng að það er nánast undantekning að menn séu dæmdir ósakhæfir þótt það sé algjörlega vitað að þeir séu ósakhæfir,“ segir Guðmundur.
Spurður hvort fangar sem glími við alvarleg veikindi séu færðir í annað úrræði ef heilsufar þeirra versnar á meðan fangelsisvist stendur yfir segir Guðmundur svo ekki vera. Hann segir að þegar heilsufar fanga fari aftur séu þeir stundum færðir í öryggisvistun, fjarri öðrum föngum.
„Þeir eru einangraðir frá umhverfinu, í meira fangelsi og þungbærari fangelsisvist og þurfa jafnvel að sitja lengur inni vegna þess að þeir fá ekki reynslulausn fyrr en það er komið fullnægjandi búsetuúrræði fyrir þá. Þar eru sveitarfélögin aldrei tilbúin,“ segir Guðmundur.
Líkt og greint var frá í gær fóru lögfræðingar á vegum Öryrkjabandalags Íslands og Afstöðu í heimsókn í fangelsið á Hólmsheiði fyrir skömmu þar sem þeir skoðuðu meðal annars aðbúnað. Guðmundur segir að Afstaða eigi í góðu samstarfi við ÖBÍ um málið.