Búið er að veiða rúmlega 95% af leyfilegum heildarafla af þorski fyrir strandveiðar. Fyrir hádegi í dag voru um 620 tonn eftir af kvótanum.
Því má gera ráð fyrir að strandveiðar stöðvist síðar í vikunni að öllu óbreyttu.
Smábátaeigendur vonast til þess að geta stundað veiðar út ágústmánuð og veitt í þá 48 daga sem mikið hefur verið rætt um og strandveiðifrumvarp ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur átti að tryggja.
Afgreiðslu frumvarpsins um strandveiðar var frestað til næsta þingvetrar. Það er því ljóst að veiðar munu ekki geta staðið yfir í allt sumar ef ekki verður bætt við kvótann þar sem að Fiskistofu ber, lögum samkvæmt, skylda til þess að stöðva veiðarnar um leið og kvótinn klárast.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra bætti þúsund tonnum við þorskveiðiheimild til strandveiða fyrir tæpum tveimur vikum. Enn er óljóst hvort hún muni bæta enn frekar við veiðiheimild strandveiðimanna til þess að reyna að tryggja 48 daga veiðitímabil.
Í Morgunblaðinu í dag sagði hún málið vera til skoðunar innan ráðuneytisins.