Nú þegar strandveiðar hafa staðið yfir í 39 daga eru rúm 2% eftir af leyfilegum heildarafla af þorski, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fiskistofu.
Í gær voru 554 strandveiðibátar með löndun af þeim 800 bátum sem eru með afla, og náðu þeir að saxa vel á kvótann.
„Það er mok fiskirí hjá öllum núna um þessar mundir,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdarstjóri Landssambands smábátaeigenda. Meðaltal veiða á dag í júlí hefur verið 301 tonn samkvæmt tölum frá Erni.
Þegar blaðamaður náði tali af honum voru rétt rúm 334 tonn eftir af þorskaflanum og sagðist hann halda að hann kæmi allur á land í dag.
Örn segir ráðherra vera að skoða leiðir til þess að tryggja 48 daga veiðar. Hann segist vona að það takist að bæta við veiðiheimildirnar svo að það takist.
Hann segir erfitt að segja til um það hversu miklu muni þurfa að bæta við kvótann til þess að tryggja veiðidagana en gæti trúað að það séu 5.000-6.000 tonn umfram það sem þegar hefur verið gefið út.
Örn segist reikna með því að ákvörðun ráðherra muni liggja fyrir síðar í dag.