Enn er beðið eftir ákvörðun frá atvinnuvegaráðherra hvort bætt verði við strandveiðikvótann. Aðeins er rétt rúmt prósent eftir af veiðiheimildinni eins og er, eða um 122 tonn.
Málið er í deiglunni í atvinnuvegaráðuneytinu að sögn Dúa Landmark, upplýsingafulltrúa atvinnuvegaráðuneytisins. Hann segir svona ákvörðun oft taka tíma.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði við mbl.is fyrr í dag að hann telji að sá kvóti sem eftir er komi á land í dag. Sagðist hann að auki vonast til þess að það takist að bæta við kvótann til þess að tryggja 48 daga veiðitímabil.
Hann sagðist einnig halda að það þyrfti að bæta 5-6 þúsund tonnum við kvótann eins og hann er nú, til þess að ná að tryggja 48 daga veiðitímabil.