„Það dregur til tíðinda í dag,“ segir Dúi Landmark upplýsingafulltrúi atvinnumálaráðuneytisins þegar hann var spurður um það hvort strandveiðipotturinn verði stækkaður. Hann gat þó ekki sagt til um það hvort potturinn yrði stækkaður eða ekki, en að niðurstaða muni liggja fyrir síðar í dag.
Dúi greindi frá því í samtali í gær að „málið væri í deiglunni“ innan ráðuneytisins.
Fiskistofa stöðvaði strandveiðar í gær og því hefur strandveiðimönnum ekki verið heimilt að veiða í dag. Veiðitímabilið náði því ekki 48 dögum eins og ríkisstjórnin hafði lofað, og reyndi að tryggja í strandveiðifrumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra, sem var frestað til næsta þings.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann vonaðist til þess að það tækist að bæta við strandveiðipottinn til þess að tryggja 48 daga strandveiðitímabil. Hann sagðist halda að það þyrfti 5.000-6.000 tonn til viðbótar við kvótann til þess að það væri hægt.