Margrét Stefánsdóttir er stofnandi Stafróa, nýs íslensks fyrirtækis, sem framleiðir óróa fyrir börn. Óróinn er frábrugðinn öðrum að því leyti að hann er endurunninn úr ónýtum plastleikföngum sem annars hefðu farið í ruslið. Þessi nýstárlega nálgun hlaut þá viðurkenningu á dögunum að vera valin á tvö virtustu svæði vörusýningarinnar Playtime í París.
„Þessi þörf fyrir að skapa hefur alltaf blundað í mér. Það er eitthvað með stafina sem heillar mig, mismunandi letur, stafagerð og stafróf til dæmis. Ég fór að hugsa hvað ég gæti gert úr þessum áhuga mínum en vildi ekki bæta við dóti í þennan heim, nóg er það nú samt,“ segir Margrét sem hefur á undanförnum árum starfað í fjölmiðlum, kynningar- og markaðsmálum.
„Ég fór að leita eftir samstarfi einhvers sem væri að endurvinna plast og fann Björn Steinar Blumenstein hjá Plastplan og var svo heppin að hann var til í að þróa þetta með mér. Þetta hefur tekið sinn tíma.“
Gömul plastleikföng sem börn eru hætt að nota eru kurluð og brædd niður í form sem Margrét lét hanna með íslenska stafrófinu. Einnig eru form eins sól og máni. Stafrói er ekki aðeins falleg hönnunarvara heldur hefur hann einnig annan tilgang. Stafir barnsins gera óróann persónulegan en um leið getur hann ýtt undir lærdóm.
„Þrívíð form hjálpa börnum að tileinka sér bókstafi og orð snemma á lífsleiðinni, þannig að þetta er bæði list og lærdómur,“ segir Margrét.
Er þá enginn órói eins og annar?
„Nei, það eru engir tveir eins. Fólk getur pantað nafn, eða orð, þar er hægt að nota hugmyndaflugið en upphaflega hugmyndin er sú að setja nafn barns í óróann.“
Margrét ákvað að sækja um fyrir Stafróa á barnavörusýningunni Playtime í París. Árlega sækja mörg þúsund manns sýninguna sem koma frá fyrirtækjum alls staðar úr heiminum til að skoða þróun á barnavörumarkaði og kaupa inn vörur fyrir næsta tímabil í smásölu. Varan vakti aldeilis athygli og var valin á tvö virtustu svæði sýningarinnar; Trend Space sem sýnir nýjustu tískustraumana í lífsstílstengdum vörum og First Timers sem veitir efnilegum nýliðum sérstaka athygli. Stafrói var eina varan sem fékk þá viðurkenningu að vera valin á bæði svæðin.
„Listrænn stjórnandi sýningarnnar, sem valdi vörur inn í Trendspace, vildi til dæmis fá skærgulan óróa. Gulur er rosalega sterkur litur hérna núna.“
Hvernig kemur það til að þú ert með bás á sýningunni?
„Ég fór í það að skoða hvaða vörusýning erlendis myndi passa. Þessi sýning leggur höfuðáherslu á alla fagurfræði. Ég ákvað svo að slá til og koma hingað. Ég sé ekki eftir því,“ útskýrir hún.
„Það er mikill heiður fyrir mig, sem er algjörlega ný á markaði og lítill fiskur í stórri tjörn, að vera valin inn í þessi rými. Þetta eru allt stórir aðilar hérna úti og stór merki. Öll helstu evrópsku merkin í barnafatnaði eru hér á svæðinu. Svo þetta er hvatning og mjög gaman.”
Hún hefur fengið heimsóknir á básinn sinn frá fólki frá Suður-Kóreu, Kanada, Hollandi, Kína, Kúveit, Japan og Beirút svo dæmi séu tekin.
„Þetta er í raun sölusýning þar sem maður safnar viðskiptavinum. Margir hafa beðið mig um meiri upplýsingar og ég þarf bara að vera mjög öflug og fylgja þessu eftir í kjölfarið.”
Hverju er fólk hrifið af við Stafróa?
„Það er mjög hrifið af þessari endurvinnsluhugmynd. Það heillar fólk og ég hef heyrt frá fólki hér að þau hafi ekki séð slíkt áður unnið úr leikföngum sem annars færu á haugana. Svo finnst þeim litablandan draumkennd og skemmtileg og líka það að enginn órói sé eins og annar,“ segir Margrét.
„Það kom til mín kona sem er frá mjög stóru frönsku merki, hún hefur reyndar komið nokkrum sinnum til mín á básinn og dregið með sér fólk, og sagði mér að þetta væri uppáhaldsvaran sín á þessari sýningu. Þetta er fólk sem hefur verið í bransanum í fjölda ára.“
Hún segir óróann einnig skemmtilegan að því leyti að hann sé alltaf á hreyfingu. „Hann er laufléttur og stoppar aldrei, andrúmsloftið dugar til að halda honum á hreyfingu.“
Þróunarferlið tók sinn tíma að sögn Margrétar.
„Það var mjög langt, því órói er þess eðlis að hann þarf að hafa jafnvægi og það er ákveðin eðlisfræði í þessu. Ég hafði ekkert endilega séð það fyrir að það yrði mál. Plastið þarf líka allt að vera CC-vottað eða plast sem má bræða og svo framvegis. Hugsunin er svo heil í þessari endurvinnslu.“
Eru ekki sérstakar áskoranir sem fylgja því að hanna barnavöru?
„Það þurfti að hugsa vel út í stærð stafanna. Það þarf líka að koma mjög skýrt fram í öllu markaðsefni að þetta á að hanga í loftinu. Barn má ekki handfjatla þetta eitt. Þó að stafirnir séu stórir þá er þetta alls ekki leikfang og það var áskorun að koma því áleiðis. En ég held að fólk sé mjög meðvitað um að það að óróar, þekkt fyrirbæri fyrir börn, eru ekki settir í hendur barns sem leikfang.“
Margrét er nýbyrjuð að kynna hugmyndina, bæði hér á landi og erlendis.
„Ég er bara nýbyrjuð. En fólk er heillað af hugmyndinni og það skiptir máli að þetta snúist ekki aðeins um hönnun heldur líka um ábyrgð, að nýta efni sem annars færu til spillis.“