Khloé Kardashian hefur nú stigið fram og sagt frá öllum þeim fegrunaraðgerðum sem hún hefur gengist undir síðustu ár, eftir vangaveltur fegrunarlæknis um hvað raunverulega stæði að baki mikilla breytinga á útliti hennar.
Breski læknirinn, Jonny Betteridge, birti myndskeið á Instagram þar sem hann bar saman nýlegar myndir af Khloé frá brúðkaupi Jeff Bezos og Lauren Sánchez í Feneyjum, við myndir frá því fyrir mörgum árum. Þar listaði hann þær aðgerðir og meðferðir sem hann taldi hana hafa farið í, meðal annars lyftingu á augabrúnum, nefaðgerð, varafyllingar og andlitslyftingu.
Betteridge er þekktur fyrir að greina hugsanlegar fegrunaraðgerðir frægra einstaklinga, þar á meðal Angelinu Jolie, Taylor Swift og Anne Hathaway.
Khloé svaraði færslunni sjálf í athugasemdunum og tók saman mjög nákvæman lista yfir þær aðgerðir sem hún hefur gengist undir og hvaða læknar hafa framkvæmt þær.
„Ég tek þessu sem hrósi! Í fyrsta lagi eru þessar myndir teknar með um 15 ára millibili, en hér er listi yfir hluti sem ég hef gert. Ég hef verið mjög opin með þetta áður, svo förum yfir það hér,“ skrifaði hún.
Khloé sagði að hún hefði farið í nefaðgerð hjá Dr. Raj Kanodia, látið fjarlægja líkamshár með leysimeðferð hjá Sev Laser Aesthetics, fengið Botox og Sculptra-meðferð þar sem æxli var fjarlægt úr kinninni hjá 7Q Spa Laser & Aesthetic Center og farið í leysimeðferð til að strekkja húðina hjá Software Therapy.
Hún hefur einnig fengið fyllingar fyrir nokkrum árum, en ekki nýlega, og hefur misst um 36 kg síðustu ár með aðstoð einkaþjálfarans Joe Paris.
Khloé notar einnig sérstaka kollagenþræði undir höku og á háls, ásamt andlitsmeðferðum með laxasæði, peptíðum, vítamínum og daglegri húðumhirðu.
Að lokum bætti hún við: „Það er 2025 og margt annað sem við getum gert í stað þess að fara undir aðgerð, en þegar sá tími kemur, og ef ég kýs það, þá þekki ég nokkra frábæra lækna.“