„Þrátt fyrir hátt vaxtastig og aukið framboð er eftirspurn nokkuð góð“

Úlfar vill ekki meina að fasteignasali sé eins og sálfræðingur …
Úlfar vill ekki meina að fasteignasali sé eins og sálfræðingur en játar að það sé betra að vera ágætur í mannlegum samskiptum þegar spennan magnast vegna langra keðja sem geta myndast. Morgunblaðið/Karítas

Úlfar Þór Davíðsson, fast­eigna­sali á fast­eigna­söl­unni Borg, seg­ir að fast­eignaviðskipti séu flók­in því að fólk sé oft með al­eigu sína bundna í fast­eign­um. Árið byrj­ar vel á markaðinum en þó geng­ur oft á ýmsu því að oft mynd­ast lang­ar keðjur sem geta slitnað og það hef­ur áhrif á fólk.

Hvernig er fast­eigna­markaður­inn núna?

„Hann er nokkuð virk­ur og í góðu jafn­vægi. Árið byrjaði vel. Vaxta­stig er ennþá hátt miðað við það sem best var. Eft­ir­spurn er nokkuð góð en fram­boð hef­ur auk­ist jafnt og þétt. Þetta þýðir að fólk gef­ur sér meiri tíma til að skoða og leita að réttu eign­inni. Sölu­tími hef­ur því lengst nokkuð miðað við það sem hann var. Við erum að sjá minna af kaup­end­um en áður á aldr­in­um 20-30 ára og þeir kaup­end­ur eru þá oft að kaupa með aðstoð for­eldra,“ seg­ir Úlfar.

Hafa stýri­vaxta­lækk­an­ir haft ein­hver áhrif á markaðinn?

„Stýri­vext­ir eru enn nokkuð háir þrátt fyr­ir að vaxta­lækk­un­ar­ferli sé hafið. Ný­leg­ar stýri­vaxta­lækk­an­ir eru já­kvæðar en hafa hins veg­ar ekki leitt til lækk­un­ar á verðtryggðum vöxt­um á fast­eignalán­um sem skipt­ir miklu máli fyr­ir flesta kaup­end­ur. Það eru ekki marg­ir sem hafa greiðslu­getu í að taka óverðtryggt lán. Heilt yfir auka stýri­vaxta­lækk­an­ir já­kvæðni á markaðinum.“

Hvers vegna er staðan eins og hún er?

„Þrátt fyr­ir hátt vaxta­stig og aukið fram­boð er eft­ir­spurn nokkuð góð. Það er mik­il­vægt að hafa í huga að staðan eins og hún var, þegar vext­ir voru sem lægst­ir og fram­boð sögu­lega lítið, er í raun ekki eðli­legt ástand. Í nú­ver­andi vaxtaum­hverfi og auknu fram­boði er í raun eðli­legt að sölu­tími leng­ist og að markaður­inn sé viðkvæm­ari fyr­ir verðlagn­ingu.“

Hafa bank­arn­ir áhrif á markaðinn?

„Bank­arn­ir vilja auðvitað lána fast­eignalán en eru háðir regl­um Seðlabank­ans og stýri­vöxt­um.“

Ég heyri oft ýms­ar sög­ur af fólki sem er að fara yfir um því að keðjur eru svo lang­ar að þetta tek­ur eng­an enda. Er hægt að gera eitt­hvað til að reyna að stytta keðjur?

„Flest­ir eru með al­eigu sína í fast­eign­inni sinni og geta ekki keypt aðra eign án þess að vera bún­ir að selja sjálf­ir. Þetta þýðir að fólk sem er að stækka og minnka við sig ger­ir til­boð með fyr­ir­vara um að sín eign selj­ist inn­an ákveðins tím­aramma. Þegar sölu­tími var al­mennt styttri en núna vegna minna fram­boðs gekk þetta nokkuð vel upp í flest­um til­vik­um. En þegar sölu­tími er að lengj­ast þarf þol­in­mæði í þetta og það er erfitt fyr­ir fólk að vera í þess­ari óvissu í lang­an tíma. Fólk er misþol­in­mótt.

Á meðan al­mennt er ekki boðið upp á brú­ar­lán fyr­ir fólk sem á eft­ir að selja er lítið annað að gera en að all­ir séu meðvitaðir um þessa stöðu og sýni þol­in­mæði alls staðar í keðjun­um. Fólk get­ur líka byrjað á því að selja, en fáir eru til­bún­ir í að vera mögu­lega í þeirri stöðu að enda hús­næðis­laus­ir. Mögu­lega get­ur fólk selt með þeim fyr­ir­vara að finna sér eign inn­an ein­hvers tím­aramma en þá er spurn­ing hvort kaup­end­ur sætti sig við þannig fyr­ir­vara með þeirri óvissu sem því fylg­ir fyr­ir þá. Þetta er ekki ein­falt mál og erfitt að leysa þetta á ann­an hátt en að all­ir séu meðvitaðir um þetta og sýni gagn­kvæm­an skiln­ing. Þó að fólki byðist brú­ar­lán er líka óvissa og áhætta í því í há­vaxtaum­hverfi. Ann­ars staðar á Norður­lönd­um hafa lána­stofn­an­ir haft aðkomu að mál­um m.a. með þeim hætti að veita brú­ar­lán. Það væri eitt­hvað sem mætti skoða hér í Íslandi.“

Er fast­eigna­sal­inn ekki oft eins og sál­fræðing­ur?

„Ég vil nú ekki líkja okk­ur við sál­fræðinga sem hafa lagt á sig langt há­skóla­nám til þess að öðlast þau rétt­indi en það hjálp­ar til að vera góður í mann­leg­um sam­skipt­um og geta sett sig í spor annarra og sýnt skiln­ing. Þetta er stór­mál fyr­ir fólk, heim­ili, ör­yggi og al­eiga er í húfi.“

Seðlabanki Íslands set­ur strang­ar regl­ur um greiðslu­hlut­fall. Úlfar seg­ir að þetta hafi verið gert til að draga úr þenslu.

„Regl­ur Seðlabank­ans eru þær að há­mark greiðslu­byrðar­hlut­falls á fast­eignalán­um megi ekki fara yfir 35% af mánaðarleg­um ráðstöf­un­ar­tekj­um og 40% fyr­ir fyrstu kaup­end­ur. Þess­ar regl­ur voru hugsaðar sem tíma­bund­in aðgerð til að stemma stigu við þenslu í hag­kerf­inu. Það er hlut­verk Seðlabank­ans að stuðla að jafn­vægi í hag­kerf­inu. Fast­eigna­markaður­inn hef­ur í því sam­hengi mik­il áhrif og því eðli­legt að horft sé til hans þegar verið er að leita jafn­væg­is.“

Get­ur þú nefnt dæmi þar sem keðja hef­ur slitnað og ferli hef­ur tekið níu mánuði eða svo?

„Já, auðvitað höf­um við eins og aðrir sem starfa á þess­um markaði ekki sloppið við lang­ar keðjur, en sem bet­ur fer er þetta yf­ir­leitt þannig að þær ganga upp á end­an­um ef all­ir róa í sömu átt og sýna þol­in­mæði og skiln­ing.“

Ég tek eft­ir að sömu hús­in eru kannski tvö ár að selj­ast. Þau eru aug­lýst til sölu og svo eru þau ekki seld fyrr en tveim­ur árum seinna. Er þetta út af keðjum sem slitna?

„Þarna kem­ur margt til álita og ekk­ert eitt sem endi­lega or­sak­ar lang­an sölu­tíma. Keðjur geta vissu­lega tekið lang­an tíma og geta verið ein af ástæðunum, en t.d. verðlagn­ing, staðsetn­ing og ástand geta einnig haft áhrif.“

Þrátt fyrir hátt vaxtastig er mikið að gera á fasteignamarkaðinum.
Þrátt fyr­ir hátt vaxta­stig er mikið að gera á fast­eigna­markaðinum. Annie Spratt/​Unsplash
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda