Annar Norðmaður að taka við landsliðinu?

Per-Mathias Högmo er orðaður við íslenska landsliðið í dag.
Per-Mathias Högmo er orðaður við íslenska landsliðið í dag. Ljósmynd/fotball.no

Norðmaðurinn Per-Mathias Högmo er í dag orðaður við starf landsliðsþjálfara karla í fótbolta en staðan er laus eftir að Åge Hareide lét af störfum í síðasta mánuði.

Fotbollskanalen greinir frá og segir að Högmo sé á lista KSÍ yfir mögulega arftaka landa síns Hareide.

Arnar Gunnlaugsson og Freyr Alexandersson hafa helst verið orðaðir við stöðuna og Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, sagði við mbl.is að sambandið væri spennt fyrir því að ráða íslenskan þjálfara.

Högmo, sem er 65 ára, þjálfaði síðast Urawa Red Diamonds í Japan en var rekinn í ágúst. Hann stýrði karlalandsliði Noregs á árunum 2013 til 2016 og var einnig um tíma þjálfari kvennalandsliðsins sem og yngri landsliða þjóðarinnar.

Þá hefur hann einnig stýrt Fredrikstad í heimalandinu og Häcken í Svíþjóð. Morten Kalvenes, aðstoðarmaður Högmo hjá Urawa Red Diamonds, gæti orðið aðstoðarþjálfari Norðmannsins hjá Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert