Hannes Þór: „Þá sprakk ég úr reiði“

„Þá sprakk ég úr reiði, ég get alveg sagt það eins og það er,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, í Dagmálum.

Hannes Þór, sem er fertugur, lagði skóna á hilluna haustið 2021 eftir afar farsælan feril þar sem hann var í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu og fór á tvö stórmót með liðinu.

Mikið af erfiðum tilfinningum

Hannes yfirgaf Valsmenn árið 2021 og lagði skóna á hilluna skömmu síðar en þegar Valsmenn tilkynntu brotthvarf Hannesar af Hlíðarenda tilkynnti félagið að hann hefði verið rekinn, sem var fjarri sannleikanum.

„Það var búinn að vera mikill aðdragandi að þessu og mikið af erfiðum tilfinningum,“ sagði Hannes.

„Þetta var leiðinlegt og opinbert mál sem var í fjölmiðlum. Fótboltinn var að klárast þarna og mögulega með allt öðruvísi og leiðinlegri hætti en stóð til. Það fór langur tími í það að fá niðurstöðu í málið en svo féll þetta í ágætis farveg og ég skildi við Börk og félaga í ágætis sátt. Daginn eftir kemur svo þessi tilkynning.

Þá var ég í rauninni orðlaus og skildi ekki hvað var í gangi. Það fóru alls konar getgátur af stað. Mér fannst illa að þessu staðið og þetta var klúður frá A til Ö. Ég held að Börkur myndi nú alveg taka undir það með mér,“ sagði Hannes meðal annars.

Viðtalið við Hannes Þór í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert