Kýs að trúa Gylfa í þessu máli

Sölvi Geir Ottesen á blaðamannafundinum í dag þar sem Gylfi …
Sölvi Geir Ottesen á blaðamannafundinum í dag þar sem Gylfi Þór Sigurðsson var kynntur til leiks hjá Víkingi. mbl.is/Karítas

„Þetta þýðir helling fyrir félagið,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is um komu Gylfa Þórs Sigurðssonar til félagsins.

„Þetta eru virkilega stór kaup og stór leikmaður. Það sýnir hvert félagið er komið. Þegar ég mætti hérna árið 2018 þá vorum við ekki á þessum stað. Þetta sýnir hvað er hægt að gera með góðu starfi innan félagsins.

Menn hafa lagt mikið á sig þessi ár, leikmenn, starfsfólk og þjálfarar. Þegar allir setja sitt á vogarskálina geturðu komist á þennan stað. Nú þurfum við að halda hungrinu áfram til að halda þessari velgengni áfram,“ sagði Sölvi.

Víkingur reyndi að fá Gylfa til félagsins fyrir síðasta tímabil en án árangurs, þar sem hann samdi við Val. Fossvogsfélagið landaði loksins sínum manni.

Sölvi Geir Ottesen og Gylfi Þór Sigurðsson fagna marki saman …
Sölvi Geir Ottesen og Gylfi Þór Sigurðsson fagna marki saman í íslensku landsliðstreyjunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum búnir að vera að daðra við Gylfa lengi. Við reyndum á sínum tíma þegar hann fór í Val og hann hefur alltaf vitað af okkar áhuga. Ég vissi að það væru einhverjar viðræður en Kári sá um það á meðan við einbeittum okkur að leikjunum við Panathinaikos.“

Forráðamenn Vals voru allt annað en sáttir við framkomu Gylfa í aðdraganda félagaskiptanna og sökuðu hann um vanvirðingu og að viljandi spila illa gegn ÍA í deildabikarnum.

„Ég hef ekki sett mig mikið inn í þau samskipti. Mér finnst alltaf leiðinlegt þegar leikmenn eða félög fara að tala um innanbúðarmál opinberlega. Þeir hefðu mátt gera þetta öðruvísi. Þetta var á milli Gylfa og Vals.

Mín upplifun er sú að Gylfi sé heiðarlegur einstaklingur og hefur alltaf verið. Ég kýs að trúa Gylfa í þessu máli og ég trúi því að hann hafi verið heiðarlegur í þessu máli.

Ég er fyrst og fremst ánægður með að hann er kominn í Víking og allt þetta drama á milli hans og Vals er búið. Við horfum fram á veginn og gleymum þessu,“ sagði Sölvi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert