Sindri Þór Ingimarsson varnarmaður Stjörnunnar skoraði tvö mörk en var að vonum svekktur þegar mbl.is talaði við hann eftir tap fyrir ÍBV, 3:2, í fjórðu umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld.
Stjörnumenn eru í sjötta sæti með sex stig eftir fyrstu fjóra leikina en gætu verið neðar eftir úrslit kvöldsins.
Þetta voru fyrstu mörk Sindra Þórs í 70 leikjum í deildinni.
„Tilfinningin er ömurleg. Mér er alveg sama hvort ég skora eða ekki, ég vil vinna leikina. Ég er óánægður með fyrri hálfleikinn, við vorum aðeins betri í seinni en heilt yfir slappir í dag,“ sagði Sindri Þór.
Kannski undarlegt að tapa þegar þú skorar tvö mörk?
„Já ég skora ekki oft. Það kom eitt um daginn í bikarnum og tvö í dag en eins og ég segi, frekar vil ég halda hreinu en að skora.“
Hvað klikkaði þá aðallega í leik Stjörnunnar í kvöld?
„Þeir voru yfir í baráttunni í fyrri hálfleik og við unnum ekki mörg návígi, bæði framar og aftar á vellinum. Því var auðvelt fyrir þá að leysa úr pressunni og fara í skyndisókn.
Síðan fáum við á okkur ódýr mörk, sérstaklega fyrsta. Þriðja markið var síðan skyndisókn. Við vissum að Oliver Heiðarsson væri snöggur og áttum erfitt með að eiga við hann.
Við hefðum viljað skora fleiri en þeir. Það er bara áfram gakk, næsti leikur, vinna hann.“
Næsti leikur Stjörnunnar er einmitt gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ.
„Við mætum í Mosfellsbæ þá, sem er spennandi. Afturelding er skemmtilegt lið og við verðum að bæta í,“ bætti Sindri Þór við. Hann var síðar spurður út í bikardráttinn sem er á miðvikudaginn en hafði alls enga óskamótherja.