Sindri Þór Ingimarsson varnarmaður Stjörnunnar var skiljanlega svekktur eftir tap gegn Breiðabliki, 4:1, í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Stjarnan var með 1:0 forskot fram að 70. mínútu en Breiðablik skoraði fjögur mörk á síðustu 20 mínútunum.
„Þeir sækja hratt á okkur þegar við töpum boltanum og vörnin ekki 100 prósent eins og við viljum hafa hana. Þá fáum við á okkur eitt mark og þeir fá meðbyr. Eftir það er þetta ekki nógu gott og þeir skora mörk sem við viljum koma í veg fyrir,“ sagði hann við mbl.is og hélt áfram:
„Frammistaðan var mjög góð þar til þeir skora. Við fengum fullt af færum í stöðinni 1:0, skjótum í slána og komumst í fullt af góðum stöðum. Líka í stöðunni 1:1. Þetta voru fjögur augnablik þar sem við vorum ekki nógu klárir.“
Stjarnan missti af tækifæri til að sækja að toppliðunum í kvöld. Þess í stað er Garðabæjarliðið enn að elta toppliðin.
„Það eru fullt af leikjum eftir. Það er bikarleikur á þriðjudaginn, við ætlum að vinna hann og halda áfram að standa okkur í deildinni,“ sagði Sindri.