Reynsluboltinn Bjarni Jóhannsson, þjálfari karlaliðs Selfoss í fótbolta, er mjög ánægður með endurkomu atvinnumannsins Jóns Daða Böðvarssonar til félagsins.
Jón Daði skrifaði undir tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt í miðbænum á Selfossi í gær en hann er kominn aftur eftir 13 ára feril í atvinnumennsku.
„Þetta er stór dagur fyrir Selfoss og alla þá sem elska fótbolta hérna. Þegar strákar koma til uppeldisfélagsins eftir farsælan feril í atvinnumennsku og hvað þá landsliði sýnir það mikla reisn. Hann ætlar að gefa félaginu sínu þá krafta sem hann á eftir,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is.
Var það aðallega ástríðan fyrir Selfossi sem skilaði honum heim?
„Alveg örugglega. Það hefur blundað yfir honum í einhvern tíma að koma heim og þá hefur hugurinn leitað hingað. Ætli það hafi ekki bara verið hjartalagið sem ákvað þetta fyrir hann, án þess ég viti það.
Selfoss er ört stækkandi samfélag og það er frábært að búa hérna. Íþróttalífið hérna á Selfossi er magnað og knattspyrnudeildin er alltaf að stækka.
Að fá svona þekktan mann heim í hérað er mikil lyftistöng. Ekki bara að fá hann sem leikmann heldur líka karakter í skemmtilegt uppbyggjandi samfélag hérna á Selfossi.“
Reyndir þú að sannfæra Jón Daða að koma?
„Alls ekki. Hann vissi að hverju hann gekk hér og æfði með okkur í fyrra áður en hann fór út. Ég held að þetta sé fyrst og fremst hans karakter og ást fyrir Selfoss sem skilaði honum hingað.“
Að fá Jón Daða er stórt fyrir samfélagið á Selfossi, en burtséð frá því. Hvað vill Bjarni fá frá Jóni inni á vellinum?
„Ég ætla rétt að vona að hann skori einhver mörk fyrir okkur. Síðan vitum við sem höfum fylgst með Jóni í gegnum tíðina að útgeislun hans og ósérhlífni á vellinum fær fólk til að elska hann sem fótboltamann.
Ef það gefur ekki ungum leikmönnum hér á Selfossi innspýtingu þá yrði ég vonsvikinn. Hann gerir allt í kringum sig betra.“
Jón Daði getur ekki spilað næstu tvo leiki fyrir Selfoss þar sem félagaskiptin fara formlega í gegn þegar sumarglugginn opnar 17. júlí.
Getur koma Jóns gefið liðinu aukinn kraft í næstu leikjum?
„Það er óskandi en ég get ekki sagt það á þessari stundu fyrr en ég sé framan í leikmenn mína eftir þessar fregnir.“
„Við erum í ekkert sérstökum málum. Erum í fallsæti og fallbaráttu og leikur liðsins hefur verið upp og ofan. Ég hef ekki verið svo óhress með lungann úr leikjunum. Svo er oft þannig hjá liðum í fallbaráttu að boltinn fer í stöngina út en ekki stöngina inn.
Vonandi verður boltinn stöngin inn hjá okkur í þeim leikjum sem eftir eru og þá verðum við allir glaðir,“ bætti Bjarni við spurður um gengi Selfyssinga hingað til í 1. deildinni en liðið er í ellefta og næstneðsta sæti með sjö stig.