Forest skellti United í Manchester

Bruno Fernandes og félagar í United eru í miklu brasi.
Bruno Fernandes og félagar í United eru í miklu brasi. AFP/Oli Scarff

Nottingham Forest hafði betur gegn Manchester United, 3:2, í 15. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á Old Trafford í Manchester í dag. 

Nottingham Forest er komið í fimmta sæti deildarinnar með 25 stig en Manchester United er í 13. sæti með 19. 

Nottingham Forest hóf leikinn af krafti en Nikola Milenkovic kom Forest-liðinu yfir eftir aðeins nítíu sekúndur með skallamarki eftir hornspyrnu Elliots Anderson, 1:0. 

United-menn sóttu mikið eftir mark Forest en á 18. mínútu jafnaði Rasmus Höjlund metin þegar hann fylgdi á eftir skoti Alejandro Garnacho, 1:1, sem voru hálfleikstölur. 

Forest komst aftur yfir í byrjun seinni hálfleiksins en þá skoraði Morgan Gibbs-White. Hann tók skot utan teigs sem fór beint á André Onana markmann United sem einhvern veginn missti boltann frá sér og hann endaði í netinu, 1:2. 

Hinn funheiti Chris Wood, sem á afmæli í dag, tvöfaldaði forystu Forest-manna á 54. mínútu með skallamarki eftir fyrirgjöf frá Gibbs-White, 1:3.

Bruno Fernandes minnkaði muninn á 62. mínútu með föstu skoti eftir sendingu frá Amad Diallo, 2:3.

United-menn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en það tókst ekki og fer Nottingham Forest heim með stigin þrjú. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. United 2:3 Nottingham F. opna loka
90. mín. Callum Hudson-Odoi (Nottingham F.) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert