Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool ráku í dag Matt Beard, stjóra kvennaliðs félagsins, frá störfum.
Gengi Liverpool á leiktíðinni hefur valdið vonbrigðum en liðið er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stig eftir 14 leiki.
Liverpool fékk skell gegn Manchester City, 4:0, í síðasta deildarleik og var það kornið sem fyllti mælinn.
Beard tók við Liverpool í annað sinn árið 2021 og kom liðinu upp í efstu deild á fyrsta tímabili. Liverpool-liðið endaði svo í fjórða sæti á síðustu leiktíð en hefur ekki náð að fylgja þeim árangri eftir.