Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, segir liðið átta sig á því að það hafi verk að vinna þegar Tottenham Hotspur kemur í heimsókn á Anfield í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.
Með sigri eða jafntefli tryggir Liverpool sér enska meistaratitilinn í 20. sinn í sögu félagsins.
„Það hvílir mikil ábyrgð á okkur og við höfum enn verk að vinna. Ég vil biðja stuðningsmenn að láta ljós sitt skína og átta sig á hverju er þörf á.
Ég átta mig á væntingunum sem fylgja því að stýra Liverpool en ég er fyrst og fremst að hugsa um að klára þennan leik með sigri í stað þess að líta til titilsins og stærri myndarinnar,“ sagði Slot á fréttamannafundi í dag.
Spurður hvort hann myndi njóta leiksins á sunnudag sagði Slot: „Að njóta er eitthvað sem þú gerir eftir að dómarinn hefur flautað til leiksloka.“