Landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson og félagar í Lille gerðu 1:1-jafntefli gegn Marseille í toppslag í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu í dag.
Hákon Arnar var í byrjunarliðinu hjá Lille en hann skoraði sigurmark liðsins í miðri viku í Meistaradeildinni.
Quentin Merlin kom Marseille yfir á 17. mínútu. Allt stefndi í sigur Marseille þar til á 87. mínútu þegar varnarmaðurinn Bafodé Diakité jafnaði metin fyrir Lille.
Pol Lirola, leikmaður Marseille, fékk beint rautt spjald á fimmtu mínútu uppbótartímans og endaði leikurinn með 1:1-jafntefli.
Lille situr í fjórða sæti deildarinnar með 27 stig en Marseille er í öðru sæti með 30 stig.