Pep líkti miðjumanninum við Michael Jordan

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP/Isabella Bonotto

PepGuardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, líkti spænska miðjumanninum Rodri saman við körfuboltagoðsögnina Michael Jordan en City hefur gengið brösuglega undanfarið í fjarveru hans.

City hefur aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum, er í fjórða sæti í deildinni, 22. sæti í Meistaradeildinni og dottið úr enska deildarbikarnum eftir 2:1-tap gegn Tottenham.

„Vandamálið er ekki æfingarnar, læknarnir, sjúkraþjálfararnir, leikmenn, mataræði eða svefn heldur leikjaálagið.

Þegar við unnum þrjá titla á einu tímabili þá komu bara upp smávægileg meiðsli og við vorum mjög stöðugir,“ sagði Guardiola en nokkrir lykilleikmenn City hafa verið að glíma við meiðsli á tímabilinu líkt og Rodri sem sleit krossband í hné.

„Auðvitað er erfitt að spila án Rodri sem hlaut Gullboltann (Ballon d´Or-verðlaunin) og besta leikmann Englands á síðasta tímabili. 

Chicago Bulls unnu sex NBA-titla með Michael Jordan. Hvað hafa þeir unnið marga síðan hann hætti? Um leið og við fáum leikmenn til baka þá verðum við sterkir aftur,“ sagði Guardiola.

Næsti leikur City er gegn nágrönnum þeirra í Manchester United á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka