Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og stöllur í Bayer Leverkusen unnu fimmta leik liðsins í deildinni í röð þegar liðið hafði betur gegn Freiburg í efstu deild kvenna í knattspyrnu í Þýskalandi í dag.
Liðið er með 26 stig í fjórða sæti, þremur stigum frá toppliði Frankfurt og á leik til góða. Bayern Munchen er í þriðja sæti með jafn mörg stig og Leverkusen en Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði liðsins. Í öðru sæti er Wolfsburg þar sem Sveindís Jane Jónsdóttir spilar.
Karólína kom inn á á 64. mínútu þegar staðan var 1:0 en Sofie Zdebel skoraði fyrra mark Leverkusen og Delice Boboy skoraði seinna á fimmtu mínútu uppbótartímans.