Spænski knattspyrnumaðurinn Raúl Asencio, varnarmaður Real Madríd, varð fyrir aðkasti stuðningsmanna Real Sociedad á meðan fyrri leik liðanna í undanúrslitum spænska konungsbikarsins stóð í San Sebastián í gærkvöldi.
Asencio hefur undanfarna mánuði sætt rannsókn vegna gruns um að hafa deilt kynferðislegu myndbandi af barni, í slagtogi við tvo fyrrverandi liðsfélaga sína í unglingaliðum Real Madríd.
Stuðningsmenn Sociedad létu óánægju sína með Asencio í ljós með því að hóta honum lífláti.
„Ég held að enginn kunni við það þegar allir á leikvanginum öskra að þú skulir deyja. Þetta hafði augljóslega áhrif á hann og hann var ekki ánægður með þetta,“ sagði Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madríd, við fréttamenn eftir leikinn.
Ancelotti tók Asencio af velli í hálfleik. Real Madríd vann leikinn 1:0.
„Ég ákvað að taka hann af velli til þess að koma í veg fyrir að tilfinningar hans hefðu áhrif á leik hans. Ég tók hann af velli af tveimur ástæðum; Þetta hafði áhrif á hann og hann var búinn að fá gult spjald,“ bætti ítalski stjórinn við.