Pablo Longoria, forseti franska knattspyrnufélagsins Marseille, hefur verið úrskurðaður í 15 leikja bann vegna ummæla sinna eftir 3:0-tap liðsins gegn Auxerre í frönsku 1. deildinni um helgina.
Hinn 39 ára gamli Longoria sakaði franska sambandið um spillingu eftir leikinn en Marseille-menn voru allt annað en sáttir við dómgæsluna.
„Þetta er spilling. Ég hef aldrei séð svona áður. Þið megið alveg skrifa þessi ummæli mín niður. Það er búið að ákveða hvernig þessir leikir fara og franska deildin er ömurleg. Ef Ofurdeildin verður sett á laggirnar förum við um leið,“ sagði hann m.a. við La Provence.
„Ég ætla aldrei að þjálfa í Frakklandi aftur. Ég trúi varla að Frakkar séu sáttir við svona dómgæslu. Þetta var skandall í kvöld,“ sagði knattspyrnustjóri liðsins, Roberto De Zerbi, á blaðamannafundi eftir leikinn.