Ég óska félaginu mínu til hamingju með afmælið. Í dag, 27. febrúar, er FC Bayern 125 ára gamalt. Ég fæddist inn í félagið því afi minn var stuðningsmaður Bayern og faðir minn er það líka.
Þegar ég var strákur sögðu þeir mér margt um gullna áttunda áratuginn þegar félagið varð þrisvar Evrópumeistari. Þeir dáðust að Gerd Müller, Sepp Maier og öllum hinum. Þeir voru nánast bergnumdir af einum þeirra: Franz Beckenbauer.
Áður fyrr var FC Bayern bara eitt af mörgum félögum í landinu. Ég er með nokkrar svarthvítar myndir frá fyrstu dögum þess í huga og ég þekki sögu félagsins. En ég get í raun aðeins fjallað um það frá og með Beckenbauer-tímanum og frá þeim tíma hefur FC Bayern verið afar sérstakt félag.
Enn þann dag í dag er félagið mótað af arfleifð Beckenbauers. Ef þú skilur hvað hann stendur fyrir, skilurðu hvað Bayern stendur fyrir, stöðu félagsins og DNA. Ásamt liðsfélögum sínum bjó hann til slagorðið: „mia san mia“ á sínum tíma.
Það táknar sigurgöngu FC Bayern, hvernig félagið hefur unnið hvern titilinn af öðrum, að því er virðist í heila eilífð. Hvernig útskýri ég „mia san mia“ fyrir lesendum utan Þýskalands? Það er jákvætt en gríðarlega mikið sjálfstraust með tilvísun til okkar heimkynna. Enginn getur sært okkur!
Þú býrð í München og þú sigrar. Þetta hafa margar kynslóðir leikmanna upplifað. FC Bayern er alltaf á toppnum í Þýskalandi því það er besta liðið.
Leyndarmálið: FC Bayern er lið leikmanna. Í næstum því 50 ár hafa fyrrverandi leikmenn stjórnað félaginu, sem er sennilega einstakt í Evrópu. Þar til hann lést í fyrra var Beckenbauer í sérstöku þríeyki með Uli Hoeness og Karl-Heinz Rummenigge.
Þegar ég lék með liðinu vissu þessir þrír alltaf hvað væri í gangi í liðinu, hjá þjálfaranum og hjá öllum leikmönnunum. Þessi einstaka nánd er lykillinn að árangrinum. Sem leikmaður hlustaði maður mjög vel á þessar knattspyrnugoðsagnir. Þegar Franz talaði við leikmennina hafði það yfir sér sérstakan blæ.
Sumum kann að finnast að ég og Franz höfum átt margt sameiginlegt. Fæddir og uppaldir í München, urðum báðir leikmenn og fyrirliðar FC Bayern og þýska landsliðsins og unnum titla innanlands og utan með báðum liðum. Því miður þjálfaði hann mig aldrei því hann hefði sagt við mig: „Farðu og spilaðu fótbolta, Philipp!“ Það hefði hitt í mark.
Stundum er ég spurður hvort ég beri mig saman við hann. Það er fallega meint. En ég er sammála Uli Hoeness, lykilmanninum á bak við sigurgöngu FC Bayern. Í jarðarför Beckenbauers sagði hann: „Enginn mun jafnast á við hann.“ Með hann í brúnni átti félagið sín bestu ár. Þess vegna segi ég: Þú berð þig ekki saman við Franz Beckenbauer.
Pistilinn má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.