Kristrún lauk keppni í Þrándheimi

Kristrún Guðnadóttir.
Kristrún Guðnadóttir. Ljósmynd/SKÍ

Kristrún Guðnadóttir keppti í morgun í sprettgöngu með frjálsri aðferð á heimsmeistaramótinu í skíðagöngu í Þrándheimi í Noregi.

Hún hafnaði í 79. sæti af 121 keppanda og gekk 1,4 kílómetra langa brautina á 3:40,01 mínútum.

Jonna Sundling frá Svíþjóð sigraði á 2:56,17 mínútum, Nadine Faehndrich frá Sviss varð önnur á 3:02,66 og Kristine Stavaas Skistad frá Noregi varð þriðja á 3:02,94 mínútum.

Þetta er eina keppnisgrein Kristrúnar á mótinu þar sem hún hefur glímt við meiðsli undanfarna mánuði.

Keppni hjá körlum er einnig á dagskrá í dag en þar eru Dagur Benediktsson og Frode Hymer á meðal þátttakenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert